140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er svo sem ekki stórt mál, í það minnsta ekki í blaðsíðum, og virðist ekki vera stórt mál heldur þegar kemur að efnislegum þáttum. Það virðist sem fyrst og fremst sé um það að ræða að það sé lögbundið að slík félög þurfi að starfa samkvæmt eigendastefnu.

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna — og gott væri að fá sjónarmið hæstv. ráðherra á því: Er það svo að þessi félög séu eitthvað óbundin í því að fara að eigendastefnu eigenda sinna? Það er svolítið sérstakt ef við höfum verið að setja upp opinber hlutafélög og þau séu bara algjörlega óbundin af því hvaða stefnu eigandinn, sem er hið opinbera, annaðhvort ríkið eða sveitarfélög, hefur í málefnum fyrirtækjanna. Ég verð að viðurkenna að mér fyndist áhugavert að vita hvort við séum núna með opinber hlutafélög sem væru eins og fullkomið eyland, og stjórnendur þess fyrirtækis gerðu bara nákvæmlega það sem þeim dytti í hug og kæmi ekkert við hvað kjörin stjórnvöld vildu eða hvaða stefnu viðkomandi fyrirtæki hefði. Mér finnst þetta ótrúlegt og vil inna hæstv. ráðherra eftir því og heyra hvaða áhrif þetta hefur.

Hefur eitthvað verið um það að opinber hlutafélög hafi farið á allt annan stað eða gert einhverja allt aðra hluti en til dæmis núverandi stjórnvöld hafa viljað? Annaðhvort erum við að setja hér lög sem eru fullkominn óþarfi eða menn eru að taka á einhverju sem hefur væntanlega komið upp. Ég held að það væri mjög fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra af hverju þessi lagasetning er til komin, sérstaklega varðandi eigendastefnuþáttinn.

Síðan er hitt, að fulltrúar starfsmanna hafa sama rétt og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga til að bera fram skriflega fyrirspurnir á aðalfundum. Þetta virðist sömuleiðis kannski ekki vera mikið eða stórt mál. Eftir því sem ég best veit geta fjölmiðlar mætt á þessa aðalfundi. Maður mundi því ætla að þetta væru ansi opnir fundir og ættu að vera þess eðlis að meiri upplýsingar kæmu frá þeim en flestum öðrum. Ég velti því svona fyrir mér í öllum þeim önnum sem eru núna hjá stjórnkerfinu af margvíslegum ástæðum.

Mig rekur minni til þess að menn hafi talið að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri mjög vanmannað, þess vegna væri verið að skella því inn í önnur ráðuneyti með stjórnarráðsbreytingum. Í það minnsta minnist ég þess að hafa séð eitthvað um slíkt þótt ekki væri mikið um röksemdir. Þær voru helstar að það gæti ekki sinnt hlutverki sínu sökum fámennis og ráðuneytið væri mjög illa burðugt til að takast á við þau verkefni sem til var ætlast af því. Yfir það hefur verið farið í mörgum ræðum hér í þinginu, viðtölum og annars staðar. Það kemur því á óvart að sjá síðan þetta frumvarp ef það á að vera svona, og ég ætla hæstv. ráðherra ekki neitt annað og af því sem kemur fram í umsögnum og athugasemdum en að þetta sé bara nákvæmlega svona. Maður veltir fyrir sér hver sé hin knýjandi þörf að setja það í forgang að lögfesta það að opinber hlutafélög þurfi að fylgja eftir stefnu eigenda og koma með lagafrumvarp um að fulltrúi starfsmanna geti komið fram með skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum.

Mér finnst þetta vera svolítið áhugavert. Látum vera ef menn hefðu komið hér og sagt að komið hefði í ljós að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefði svo lítið að gera að það þyrfti að leita að einhverjum verkefnum. En það eru ekki þau skilaboð sem við höfum fengið fram til þessa.

Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þetta sé ekki réttur skilningur sem kemur fram í athugasemdum og kom svo sem fram í ræðu hans áðan. Í fyrsta lagi hvort það sé þannig að þetta sé vandamál. Er það vandamál að opinber hlutafélög eru ekki að fara eftir stefnu eigenda, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum? Í öðru lagi væri kannski gott að fá að vita í hvaða tilvikum það væri — varla eru menn að fara í þetta til að koma með þá breytingu að fulltrúi starfsmanna geti borið fram skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum, með fullri virðingu fyrir því máli.