140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og veita ágætisandsvar við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Hann fór yfir það að í sjálfu sér er engin þörf á þessu varðandi starfsmennina vegna þess að þeir hafa greiðan aðgang núna. En hæstv. ráðherra nefndi það að opinberu hlutafélögin séu að stærstum hluta undir hlutafélagalögum og eftir því sem ég best veit hefur ekki verið neinn vafi á að hlutafélögum er stjórnað af eigendum og eðli máls samkvæmt verða þau félög eða stjórnir og stjórnendur þeirra félaga að fara að vilja eigenda.

Ég er því enn ekki alveg búinn að átta mig á því af hverju við erum að gera þetta og spurði hæstv. ráðherra — hann hefur kannski ekki tekið eftir því, hann mundi kannski svara því í öðru andsvari — hvort einhver dæmi væru þess að opinber hlutafélög hafi ekki farið að vilja eða stefnu eigenda sinna eða fulltrúa eigenda sinna skulum við segja, þ.e. stjórnvalda. Ég mundi ætla að ef slíkt hefði komið upp væri kannski þörf á þessu. En eru einhver dæmi um það? Hæstv. ráðherra mundi kannski upplýsa okkur um það. Er það tilefni þessa frumvarps eða eitthvað annað? Ef menn eru að vísa í hlutafélagalögin mundi maður ætla að það væri þá ekki neitt vandamál. Þó svo að ekki hafi verið gerð eigendastefna áður þá breytir það því ekki að þetta er mótað af stefnu stjórnvalda. Gott væri að fá að vita af því hvort einhver dæmi séu þess að það hafi verið vandamál að stjórnendur opinberra hlutafélaga hafi ekki farið að vilja (Forseti hringir.) stjórnvalda.