140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt hefur þetta ekki verið vandamál. Það hefur ekki komið upp að opinberu hlutafélögin hafi farið gegn vilja eða stefnu eigenda.

Varðandi eigendastefnuna hefur það hins vegar komið upp, og við þekkjum dæmi þess, að eftir að hún kom fram hefur samt sem áður ekki verið farið eftir eigendastefnunni, það hefur nú ekki verið vilji stjórnvalda þó að það hafi verið tekið upp á vettvangi þingsins að fylgja henni eftir þegar slíkt hefur komið upp.

Mig minnir að slíkt hafi komið upp í kringum Vestia-málið svokallaða, við erum enn á þeim stað að vita ekki á hvaða verði þau fyrirtæki voru seld á sínum tíma, eins og hæstv. ráðherra þekkir mjög vel og við tókum mikla umræðu um það á sínum tíma þrátt fyrir að þetta væri allt saman skýrt í eigendastefnunni hvernig ætti að standa að þeim hlutum.

Ég veit því ekki alveg til hvers við erum að fara í þessa vegferð því að ekki virðast vera nein dæmi um að þörf sé á þessum lögum.

Hæstv. ráðherra nefndi að greiður aðgangur hafi verið fyrir starfsmenn á aðalfundina, það hafi ekki verið vandi. Og að ekki hafi komið upp nein mál sem kalli á það að við mundum breyta lögunum með þessum hætti hvað varðar það að ekki væri fylgt eftir stefnu eigenda. Miðað við hvað við höfum verið að ræða hér um mikilvæg málefni, forgangsröðun og annað slíkt er ég enn svolítið hugsi yfir því af hverju við erum að fara (Forseti hringir.) í það að klára þetta mál núna.