140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[15:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það kom fram á fundi þingflokksformanna nú í morgun að forseti ákvað að hafa annan fund í dag þar sem aðeins fimm fyrirspurnir lágu fyrir fundinum og mikilvægt er að nýta tíma þingsins á lokasprettinum, enda sjáum við að mörg brýn mál eru á dagskrá seinni fundarins í dag, t.d. svokölluð SMS-lán. Hér erum við að fjalla um atvinnutengda starfsendurhæfingu, réttindagæslu fyrir fatlað fólk, hér eru til umræðu aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hér verður fjallað um nauðungarsölu, mál frá efnahags- og viðskiptanefnd sem á að styrkja stöðu skuldara sem og mál frá velferðarnefnd um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Hér eru mörg brýn mál, virðulegi forseti, og tel ég því rétt að hafa fund fram eftir til að koma þeim til nefndar til umfjöllunar á faglegan máta.