140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

framhald ESB-viðræðna.

[15:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að hv. þingmenn, eins og þjóðin öll, hafa afstöðu til þessa máls út frá mjög ólíkum forsendum. Til eru þeir þingmenn eins og til að mynda ég sem hef ákveðna pólitíska afstöðu í Evrópusambandsmálinu, og aðrir hafa aðra pólitíska afstöðu í því. En það eru líka til þeir sem telja mjög mikilvægt, af því að þeir telja að myndin sé ekki einlit eða svart/hvít, getum við sagt, að úr viðræðunum komi ákveðin efnisleg niðurstaða þannig að þjóðin sem heild fái tækifæri til að taka afstöðu og það er mín eindregna afstaða líka, hvað svo sem mér kann að finnast um Evrópusambandsaðild út frá minni pólitísku afstöðu sem ég byggi á ákveðnum hugmyndafræðilegum forsendum og snýr m.a. að lýðræðismálum. Ég tel mjög mikilvægt að þjóðin fái sem nákvæmastar upplýsingar og mitt mat var og er enn að þær fengjust með því að fara í þessar viðræður.

Um tímalengdina held ég að við verðum í raun og veru að sjá til, og ég minni á það sem ég sagði áðan að það eru mikilvægir kaflar fram undan. Ég held að mikilvægt sé að við sjáum til að mynda hver opnunarskilyrðin verða í sjávarútvegskaflanum sem ég nefndi áðan.