140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skýrsla um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

[15:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hreinskilið svar. Það liggur þá fyrir að ánægjan með aukinn jöfnuð er fögnuður yfir áhrifum hrunsins á hina tekjuhærri.

Mig langar til að vekja athygli á öðru. Fram kemur í skýrslunni að skattbyrði hinna tekjulægstu hafi lækkað frá árinu 2007 og það staðfestir þær niðurstöður sem áður hafa komið fram. Vegna samspils persónufrádráttar og skattþrepa er eðli kerfisins þannig að þegar laun lækka lækkar skattbyrðin. Um það er ekki deilt.

Í skýrslunni er sýnt hvernig laun hafa lækkað hjá hinum tekjulægstu. Er þá ekki eðlileg ályktun að vegna þeirrar lækkunar hafi skattbyrðin lækkað og þar af leiðandi sé alls ekki hægt að rekja þá skattalækkun sem talað er um í skýrslunni (Forseti hringir.) til aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur fyrst og fremst til þess að laun hinna tekjuminni hafa lækkað um 9% samkvæmt skýrslunni?