140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skýrsla um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er útúrsnúningur hjá hv. þingmanni að segja við gleðjumst yfir því að orðið hafi mikil kjaraskerðing (TÞH: Þú varst að segja það.) hjá þeim (TÞH: Víst varstu að segja það.) sem hæst hafa launin. (Gripið fram í.) Við segjum að við höfum náð fram jöfnuði og það sem skiptir máli er að verið er að leiðrétta þá kjaraskerðingu og hækkun á sköttum sem fólk varð fyrir í tíð sjálfstæðismanna, við erum að ná henni til baka. Við höfum meðal annars náð því með því að skerða ekki persónuafsláttinn sem frystur var í tíð sjálfstæðismanna, það var nú einu sinni þannig.

Við breyttum fjármagnstekjuskattinum í þá veru að þar var sett ákveðið gólf, 100 þús. kr. gólf fyrir einstaklinga og 200 þús. kr. gólf fyrir hjón, sem hlífir fólki sem á lítinn sparnað í bönkum. Það eru sennilega 60 þús. manns sem ekki greiða fjármagnstekjuskatt en sem gerðu það í tíð sjálfstæðismanna. Kaupmáttur launa — ég bið þingmanninn um að athuga (Forseti hringir.) að 5,3% kaupmáttaraukning á launum er mesta kaupmáttaraukning sem orðið hefur í 12 ár. Það er því af mörgu að taka í þessari skýrslu (Gripið fram í.) sem sýnir að það skiptir máli að jafnaðarmenn stjórni hér á landi.