140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands.

[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hvað varðar síðustu spurningu hv. þingmanns get ég alls ekki tekið undir að þessari ríkisstjórn sé ekki annt um þá háskóla sem sinna landbúnaðarmenntun. Ég get fullvissað hv. þingmann um að samstarf mitt við báða þessa skóla hefur verið sérstaklega gott. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur verið öflugur samstarfsaðili í því samstarfsneti opinberra háskóla sem ég setti stefnuna um árið 2010 og er núna farið að skila verulegum árangri í auknu samstarfi og aukinni samræmingu milli opinberu háskólanna. Ég get ekki annað sagt en að það hafi verið feikilega gott samstarf og ég hafna því algjörlega að þessir skólar njóti ekki velvildar. Hins vegar er aðstöðumunur. Nemendafjöldinn er ólíkur og erfitt að bera saman að því leyti. Ég nefni sem dæmi að Háskóli Íslands er líklega sá skóli sem er með langflesta nemendur sem ekki er greitt sérstaklega fyrir ef við horfum á framlög.

Það sem þarf hins vegar að gera til að (Forseti hringir.) fjárveitingar til þessara skóla verði sem gegnsæjastar er að þeir fari inn í reiknilíkan sem aðrir háskólar fá greitt samkvæmt og það stendur til að ljúka þeirri vinnu á þessu ári.