140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

ráðstöfunartekjur og húsnæðiskostnaður.

[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér finnst skorta á framtíðarsýn. Hvernig vilja menn leysa þetta? Mér finnst skorta á að menn horfi á stöðu leigjenda. Þeim fer hratt fjölgandi. Þeir voru um 18% af heimilum í landinu, eru núna komnir upp í 25%. Það hefur þær skýringar að mjög margir hafa misst húsnæði sitt og mjög margir hafa bæst við og ekki keypt. Fasteignamarkaðurinn hefur legið niðri, það vantar eina tvo eða þrjá árganga, jafnvel fjóra eða fimm, inn í eignarhúsnæði. Mér finnst öll umræðan á Alþingi, því miður, snúast um skuldara, eflaust af illri nauðsyn, en menn gleyma leigjendum sem þurfa oft og tíðum að borga verðtryggða leigu, hækkandi leigu og búa við mikið óöryggi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka á öllu sínu til að bæta stöðu þess hóps.