140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[15:55]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Undanfarin þrjú ár hafa framsóknarmenn ítrekað lagt fram tillögur til hjálpar heimilum í skuldavanda. Á þær tillögur hefur því miður lítið verið hlustað, þess í stað reka stjórnvöld stefnu sem gengur út á að engum sé hjálpað nema viðkomandi sé kominn í þrot. Afleiðingin er sú að gríðarleg verðmæti fara til spillis. Ef enn dregst að tekið verði á þessum vanda af festu er mikil hætta á að fjöldi Íslendinga hreinlega missi vonina, missi trúna á að þeir geti búið börnum sínum góða framtíð á Íslandi.

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir fermingar á Íslandi eins og margir þekkja. Það hefur verið nöturlegt að verða vitni að því í mörgum fermingarveislum að þurfa að vera að kveðja vini sína og ættingja sem ætla sér að fara til Noregs, búnir að gefast upp. Þetta er ungt og vel menntað fólk, allt þeirra eigið fé er brunnið upp og það er búið að fá nóg af úrræðaleysi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í skuldamálum og flýr skattpíningu þeirra á millistétt í landinu. Lítil þjóð má ekki við slíkri blóðtöku til lengdar.

Það er í rauninni þannig að þegar íslenskar fjölskyldur biðja um réttlæti eða sanngjarna málsmeðferð verða þær annaðhvort að horfa til Hæstaréttar eða yfir til Bessastaða. Það er því ljóst að stefnubreytingu þarf í skuldamálum heimilanna. Framsókn hefur sýnt að flokkurinn er trúverðugur í þeim efnum. Eitt af því sem við höfum lagt til er að nýta skattkerfið til hjálpar heimilum og skapa jákvæða hvata til að taka á skuldavandanum.

Það er undarlegt frá því að segja að sú ríkisstjórn sem hér er við völd í dag og kallar sig norræna velferðarstjórn skuli virka þannig að ungt og efnilegt fólk, vel menntað, skuli flýja til Noregs í norræna velferð.