140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[15:58]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér erum við enn einu sinni að ræða skuldamálin. Ég held að ég hafi lagt fram eina til tvær tillögur að meðaltali á hverju ári síðan ég fór á þing. Ég held ég sé með tvær tillögur um lausn á þeim málum á þessu þingi. Sú síðasta sem kom fram fyrr á þessu ári, sem ég held miðað við núverandi aðstæður sé sú langbesta, best útfærð og gjörleg. Hún byggist eiginlega á hugmyndinni um hvernig maður borðar fíl, einn bita í einu, að skipta vandanum upp í langan tíma og tryggja að allir komi að honum.

Þetta er ekki endilega eina leiðin og við eigum að skoða þetta allt saman. Þetta er vandamál sem okkur var treyst til að leysa. Við vorum öll kosin hérna inn á þing með þetta stóra vandamál sýnilegt í samfélaginu, okkur var falið það verkefni að leysa það og við verðum að standa saman að lausn þessara mála.

Mig langar til að nota tækifærið og biðja stjórnarmeirihlutann um að við fáum öll að koma að lausn vandans, að þetta sé ekki unnið í einhverjum bakherbergjum af örfáum og einhverjum málamyndagjörningi á milli stjórnarflokkanna, heldur að við komum öll að þessu, vinnum þetta í fagnefnd eða vinnuhóp þar sem allir flokkar geta haft eitthvað um málið að segja.

Þetta er risastórt mál, þetta stendur samfélagi okkar verulega fyrir þrifum, ekki síst vegna þess að þetta er réttlætismál eins og komið var inn á hérna áðan. Þetta er líka spurning um í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við samþykkja það að byrðunum af hruninu sé skellt yfir á skuldara eða viljum við deila byrðunum einhvern veginn öðruvísi?