140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Samkvæmt Seðlabankanum voru um 63% skuldsettra heimila í greiðslu- eða skuldavanda í lok árs 2010. Hópurinn sem er í mestu erfiðleikum eru ungar barnafjölskyldur, tekjulágir einhleypingar og þeir sem tóku verðtryggð fasteignalán, sérstaklega á seinni hluta uppsveiflunnar.

Skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar áttu að hjálpa þeim sem voru í mestri neyð en samkvæmt nýlegu mati Seðlabankans nutu þeir tekjuháu í meira mæli góðs af sértækri vaxtaniðurgreiðslu og 110%-leiðinni. Skuldaúrræðin fá því falleinkunn á mælikvarða ríkisstjórnarinnar sem vill ekki viðurkenna að hún hafði rangt fyrir sér þegar hún hafnaði almennri leiðréttingu skulda með því að fordæma tillögur að skuldaleiðréttingum og kalla þær peningaprentun. Samkvæmt Seðlabankanum hefði almenn leiðrétting fækkað heimilum í vanda um 15 þúsund en 110%-leiðin og sérstök vaxtaniðurgreiðsla fækkaði heimilum í greiðsluvanda um 1.450.

Ríkisstjórnin lofar nú úrbótum í barna- og vaxtabótakerfinu til að aðstoða enn og einu sinni þá sem eru í mestri neyð. Ég ætla ekki að trúa öðru en að taka eigi upp sérstakar húsnæðisbætur eins og lofað var við myndun hinnar norrænu ríkisstjórnar. Hærri húsnæðisbætur munu létta tímabundið undir með mörgum heimilum sem nú kljást við greiðsluvanda en gera ekkert fyrir þá sem eru að verða eignalausir. Á sama tíma á ekki að krefja heimili með gengislán um endurgreiðslu á ofgreiddum vaxtabótum og sértækri vaxtaniðurgreiðslu.

Frú forseti. Óréttlætið sem (Forseti hringir.) skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar hafa búið til er orðið óbærilegt fyrir marga og ég óttast að margir muni hætta að greiða, flýja land eða grípa til eigin ráða.