140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það sem við köllum norræna velferð er ekki síst fólgið í traustri umgjörð um húsnæðismál einstaklinga allt lífið. Það er mikilvægt í því sambandi að við horfum til þess sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði áðan, að við eigum ekki að líta á þann vanda sem uppi er hér og nú eins og vanda sem hægt er að leysa með einhverri töfralausn, með því að prenta peninga eins og minnst var á hér einhvern tíma, eða með einfaldri 200 milljarða kr. niðurgreiðslu í eitt skipti fyrir öll, heldur þarf að líta til þess að treysta umgjörðina til langframa. Þess vegna er ég hjartanlega sammála því að mikilvægt sé að við festum í sessi fyrir næsta ár og næstu ár vaxtabótakerfið og niðurgreiðslu á vöxtum og barnabótakerfið vegna þess að það mun til frambúðar tryggja þá miklu og mikilvægu umgjörð sem einstaklingar þurfa að hafa til þess að treysta á og við getum kallað norræna velferð.

Frú forseti. Þetta er stuttur tími. Mér finnst mjög mikilvægt að horfa á þá skýrslu sem Hagstofan gaf út í dag þar sem kemur fram að við erum þó ekki að greiða nema 18% af ráðstöfunartekjum okkar í húsnæðiskostnað, sem er lægra hlutfall en á árinu 2006. Ég hefði sjálf talið að við værum með einkaeignarstefnu okkar og skuldabyrði allri að eyða miklum mun meira í húsnæðiskostnað. En einn er sá hópur sem hefur verið afskiptur og ég vil hvetja til þess að það dragist ekki lengur en út þessa viku að taka á málefnum þeirra sem eru með lánsveð. Þetta er ekki stór hópur og þetta eru ekki háar fjárhæðir (Forseti hringir.) miðað við þær afskriftir og þá peninga sem hafa verið settir til að bæta skuldastöðu heimila og ég hvet (Forseti hringir.) til að gripið verði til aðgerða í næstu viku ef lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) telja sig ekki hafa lagastoð í þeim efnum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að virða ræðutíma.)