140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:14]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit að minnsta kosti að upplýsingagrunnurinn sem við höfum núna er betri en nokkru sinni fyrr. Við fundum auðvitað mjög fyrir því haustið 2010 að ýmsar grundvallarupplýsingar skorti. Þá var lögð mikil vinna í að taka þær saman og heldur hefur miðað áfram en hitt og upp á síðkastið höfum við notað meira samtímagögn frá skattinum á grundvelli rafrænna framtala, sem eru þá bestu og nýjustu upplýsingar sem til eru um stöðuna. Ég held því að sá upplýsingapakki sem við höfum núna í höndunum sé eins traustur og hann getur orðið í bili, en Hagstofan stefnir að því að mynda gagnagrunn sem verði kannski innan árs orðinn virkur og opinn og verður þá uppfærður jafnóðum. Það er auðvitað það sem okkur hefur vantað, einn öflugan miðlægan gagnagrunn um heildarskuldastöðuna hjá heimilunum og húsnæðislánin ekki síst. Við eigum auðvitað enga fagstofnun á þessu sviði eftir að Húsnæðisstofnun ríkisins hvarf út úr myndinni sem slík á sínum tíma.

Varðandi spurningar hv. þingmanns í fyrsta lagi um Íbúðalánasjóð hefur hann framkvæmt 110%-leiðina algerlega í samræmi við þau lög sem Alþingi afgreiddi og hann er bundinn af. Það er reyndar sama aðferðin og sumir bankar og lífeyrissjóðir hafa notað en aðrir bankar hafa farið sínar eigin leiðir. Það er vissulega ekki heppilegt að slíkt misræmi sé uppi en enn sem komið er hefur ekki verið tekin ákvörðun um annað en að klára þá aðgerð. Þar stendur lánsveðshópurinn út af og þess vegna bindur maður vonir við að það takist að koma þar á samkomulagi en maður getur auðvitað ekki lofað því fyrir fram, því að það á eftir að setjast niður í hinar eiginlegu samningaviðræður um hvernig kostnaðinum verði deilt. Þar verður vandinn því að auðvitað ætlumst við til þess að allir leggi þar af mörkum.

Varðandi endurreikning gjaldeyrislána er sérstök samstarfsnefnd, sem í eru umboðsmaður skuldara og Samtök fjármálafyrirtækja, að fara yfir þau mál öllsömul, sömuleiðis dómsmálin sem þarf að að sortera og flýta í gegnum réttarkerfið. Mat manna hefur verið að það þyrfti ekki lagabreytingar til ef samkomulag tækist við héraðsdóm og síðan Hæstarétt um að taka mikilvægustu málin hratt í gegn og vonandi getur það gerst á þessu ári. (Forseti hringir.)

Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa umræðu, ég held að flestir hafi rætt þetta á þeim nótum að við séum öll af vilja gerð til að láta gott af okkur leiða. En ég verð þó að segja að mér finnst ansi langt gengið þegar menn leggja hlutina þannig upp að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi búið til ranglæti í þessum efnum, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir (Forseti hringir.) gerði. Það er nú ekki verið að láta menn njóta vafans. Ætli það sé nú ekki þannig … (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Þetta var það sem hv. þingmaður sagði, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu búið til mikið ranglæti í þessum efnum. Ég hélt að menn hefðu verið að reyna að greiða úr þessum vanda. Það má deila um hversu vel hefur til tekist en að ætla mönnum annað en að vera að reyna það af góðum hug er langt gengið.