140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

auðlegðarskattur, eignarnám og skattlagning.

483. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðgerðir sem gripið var til í þeim tilgangi að stöðva mikla skuldasöfnun ríkissjóðs þurftu að vera róttækar. Fáir voru aflögufærir og verja þurfti þá þjóðfélagshópa sem ekki þoldu frekari álögur. Fréttir dagsins um aukinn jöfnuð í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sýna að þetta hefur tekist.

Það er mat ráðuneytisins að skattlagningin standist öll ákvæði stjórnarskrárinnar, bæði hvað varðar eignarrétt og afturvirkni skattlagningar.

Í greinargerð með frumvarpi um auðlegðarskattinn sem lagður var á í fyrsta sinn árið 2010 voru færð margvísleg rök fyrir því hvers vegna aftur var tekinn upp skattur á hreina eign einstaklinga. Þar var meðal annars bent á að í ljósi þeirrar miklu eignatilfærslu sem orðið hefði á árunum fyrir hrun og samþjöppunar á eignarhaldi væri lagt til að taka upp skatt á hreina eign, en þá með mjög háu fríeignarmarki fyrir einstaklinga. Jafnframt kom fram það sjónarmið, sem ég get tekið undir, að þeir aðilar sem söfnuðu miklum eignum fyrir hrun hafi notið þess að skattar á fjármagnstekjur voru lágir, auk þess sem aðrar skattareglur voru þeim hagstæðar fyrir hrun. Meðal annars af þeim sökum var talið réttlætanlegt að skattbyrði þessa hóps yrði aukin nokkuð frá því sem áður var sem hluti af bráðnauðsynlegri tekjuöflun ríkissjóðs til að takast á við afleiðingar hrunsins.

Því verður hins vegar ekki á móti mælt að einn af vanköntum eignarskatta, hvort sem um er að ræða skatt á hreina eign eins og auðlegðarskatt eða skatt á brúttóeign eins og fasteignagjöld til sveitarfélaganna, er að ekkert samband er á milli greiðslugetu og skattlagningar. Hin háu eignamörk auðlegðarskattsins eiga hins vegar að koma til móts við það enda má ætla að stærstur hluti þeirra eigna sem er ofan við eignamörk auðlegðarskattsins sé í arðberandi eignum eða að í öllu falli sé eignunum ætlað að skila eigandanum (Forseti hringir.) arði.