140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

flugvildarpunktar.

519. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það hefur verið spurt um þetta áður á þinginu. Það gerði Jóhann Ársælsson, að ég hygg veturinn 2003–2004, og oftar hefur þetta verið rætt eftir því sem ég fæ upp þegar ég leita í tölvunni. Fyrr í vetur var hér svolítil umræða um dagpeninga erlendis og kannski innlendis líka eftir að því var kastað fram að þeir væru fríðindi og tál. Niðurstaðan varð sú að dagpeningar sem hóflega væri deilt út væru það ekki heldur eðlileg ráðstöfun af hálfu vinnuveitandans, ríkisins sem hér var um að ræða, til þeirra sem þurfa að ferðast í vinnunni. Þá kom líka upp spurning um þessa flugvildarpunkta heima og erlends. Þeir sem fara fá þessa punkta sem einkaeign sína í raun og veru og geta ráðstafað þeim með ýmsum hætti. Algengast er auðvitað að menn noti þá sem uppfyllingu eða beina borgun fyrir flugferðir sem ekki tengjast neitt þeim flugferðum sem þeir fá þá fyrir, a.m.k. ekki þegar um starfsmenn ríkisins er að ræða.

Þar er enginn vafi um þessa flugvildarpunkta að um er að ræða bein fríðindi. Án þess að hnýta í þá sem þeirra njóta í sjálfu sér, ég get vel unnt mönnum þess að eiga þessa punkta, er það í fyrsta lagi að ríkið og skattborgararnir njóta í engu þess sem gæti komið fram, ímyndar maður sér, sem afsláttur í samningnum við flugfélagið. Í öðru lagi er með þessum punktum gert upp á milli starfsmanna ríkisins, annars vegar þeirra sem heima sitja, þ.e. á Íslandi eða á skrifstofunum eða hvar sem þeir eru nú að störfum, og ekki eru settir í flug, og hins vegar þeirra sem fljúga og geta svo notað þessa punkta sína sem upphaf í sumarfrísferðalög eða hvað veit ég.

Það er spurt um afstöðu ráðherra til þess arna. Það er líka spurt um heildarfjöldann. Hversu margir punktar eru það sem starfsmenn ríkisins fá sem fríðindi með þessu lagi? Í þriðja lagi er spurt hvort þessir punktar séu skattskyldir. Það skilst mér að þeir séu. Þá vaknar spurningin: Hvernig er sá skattur innheimtur?