140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

flugvildarpunktar.

519. mál
[16:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um ætlaðan heildarfjölda flugvildarpunkta árið 2011 fyrir utanlandsferðir á vegum ríkisins.

Fyrirtæki og stofnanir eru ekki aðilar að vildarklúbbum flugfélaga heldur eru það einstaklingarnir sjálfir sem ferðast með flugfélögunum. Þannig fylgja vildarpunktarnir þeim sem ferðast með viðkomandi flugfélagi en ekki stofnuninni eða fyrirtækinu sem greiðir fyrir flugferðina. Í ljósi þessa hefur ríkið ekki upplýsingar um þá vildarpunkta sem starfsmenn þess hafa safnað á ferðalögum fyrir ríkið.

Hv. þingmaður spyr hvort þessir vildarpunktar séu skattskyldir. Samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, samanber upphafsákvæði 7. gr. laganna. Tekjuákvæði laganna eru því víðtæk og taka til hvers konar verðmæta sem metin verða til fjár í hvaða formi sem slíkur tekjuauki fellur skattskyldum aðila í hlut. Undantekningar frá skattskyldu eru sérstaklega tilgreindar í lögunum og ber að túlka þröngt samkvæmt almennri lögskýringarreglu.

Í 118. gr. laga nr. 90/2003 segir að í upphafi hvers árs skuli ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra gefa út reglur um mat á hlunnindum og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum. Reglur þessar voru birtar í Stjórnartíðindum sem auglýsing nr. 1283/2011 að því er varðar tekjuárið 2012. Í kafla 2.1 er fjallað um ýmis starfstengd hlunnindi og kemur þar fram almenn regla um tekjufærslu hlunninda og fríðinda sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té til einkaþarfa. Þá kemur jafnframt fram að ýmis gæði sem látin eru starfsmönnum í té skuli ekki telja til tekna, þar með talið eru kaffiveitingar og notkun á borðsímum. Önnur hófleg verðmæti skapa ekki heldur tekjur í skilningi skattalaga.

Söfnun á vildarpunktum er ekki sérstaklega tilgreind í skattmati fyrir tekjuárið 2012 og hefur raunar aldrei verið á undanförnum árum. Punktasöfnun einstaklinga á sér stað með margvíslegum hætti og í mismiklum mæli. Allur þorri almennings sem notar tilteknar tegundir greiðslukorta fær punkta af viðskiptum sínum, mismarga eftir því hvaða greiðslukort eru notuð og hvernig viðskiptin eru. Þannig fá viðskiptamenn fjölmargra fyrirtækja verulegan fjölda punkta sem eins konar afsláttarkjör af sínum daglegu viðskiptum og í langflestum tilvikum er heildarfjöldi uppsafnaðra punkta að mestu leyti þannig fenginn vegna persónubundinna viðskipta með vörur.

Handhafar greiðslukorta þurfa í flestum tilfellum að greiða árgjald, mishátt eftir eðli viðskiptanna og tegund korta, og stundum eru árgjöldin jafnvel töluvert hærri en verð á ferðum sem greiddar eru af vinnuveitanda. Hafa korthafar þannig óbeint greitt fyrir fram fyrir tiltekin afsláttarkjör og þar með punktana. Þannig verður að telja að virði punta sem safnast vegna ferða á vegum launagreiðanda sé út frá skattalegu sjónarmiði afar óljóst. Punktasöfnun ríkisstarfsmanna kann að vera misjöfn eftir einstaklingum en er alla jafna ekki verulegur hluti af punktasöfnun þeirra í heild, auk þess sem punktar vegna einstaka ferða á vegum launagreiðanda eru mjög óverulegur hluti þess punktafjölda sem þarf til þess að greiða fyrir fargjöld.

Samkvæmt framansögðu er mjög ólíklegt að punktar sem safnað er á vegum launagreiðanda séu ráðandi þáttur í greiðslu fyrir ferðir sem farnar eru á grundvelli punkta. Er því mjög vafasamt að slíkt skapi starfsmönnum nokkrar tekjur eða ígildi tekna. Þá er undir hælinn lagt hvort starfsmaður sem öðlast hefur punkta í tengslum við ferðir á vegum launagreiðanda noti punktana eða að þeir nýtist honum á einhvern hátt.

Hv. þingmaður spyr að lokum hvort ráðherra telji koma til greina að semja þannig við flugfélög um þessar ferðir að vildarpunktar farþega falli niður en ríkið njóti á móti betri afsláttarkjara. Ríkiskaup stóðu fyrir útboði á flugfargjöldum á vormánuðum 2011 og eru því fargjöld nú hluti af rammasamningum Ríkiskaupa. Í útboðinu var leitað bestu kjara á markaði og gengið út frá því að tilboð bjóðanda innihéldi allan kostnað og gjöld sem féllu til við kaup á flugfargjöldum. Í útboðinu var ekki gert ráð fyrir að tilboðin innihéldu bónus eða önnur fríðindi fyrir farþega. Í ljósi þessa gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir að betri kjör fáist í nýju útboði.