140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls.

585. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég lagði inn fyrirspurn í lok febrúar á þessu ári til hæstv. umhverfisráðherra um tengsl undirbúnings umsóknar um aðild að Evrópusambandinu og friðunar svartfugls. Mér hefur fundist alveg furðulegt hversu lítil umræða hefur verið um þau áhrif sem tilskipanir Evrópusambandsins í umhverfismálum hafa á Ísland. Er ég til dæmis að vísa til fuglatilskipunar og vistgerðartilskipunar. Ég hvet alla til að lesa rýniskýrsluna um umhverfismál þannig að menn átti sig á því hvað þetta eru mikil inngrip í Ísland. Með fullri virðingu fyrir þeim aðilum sem um þetta véla í höfuðborg Belgíu, Brussel, er þetta ekki fólk sem þekkir vel til íslenskra aðstæðna. Þetta snýst um að banna hvalveiðar, refaveiðar, áhrif á selveiðar, veiðiaðferðir og annað slíkt. Þetta tengist svartfuglinum og gríðarlega mikið því grunnstefi sem við höfum haft í okkar rétti. Það kemur fram á bls. 11 í 5. kafla, með leyfi forseta:

„Í tilskipuninni er ekki gert ráð fyrir að hlunnindi geti verið lögmæt ástæða fyrir því að veita undanþágu frá meginreglum hennar.“

Virðulegi forseti. Þetta er grundvallarbreyting á því sem við höfum viðhaft hér og gengið vel eftir því sem ég best veit. Ég hef aldrei heyrt nokkurn leggja út frá neinu öðru eða gagnrýnt það fyrirkomulag sem við höfum haft.

Þess vegna ætla ég að leggja sjö spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Þær hljóma svo:

1. Hvenær fékk umhverfisráðuneytið eða stofnanir þess upplýsingar um að lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum væru í grundvallaratriðum ósamrýmanleg fuglatilskipun Evrópusambandsins?

2. Lágu fyrir upplýsingar frá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun um að til að samræmast löggjöf Evrópusambandsins þyrfti að breyta ákvæðum laga nr. 64/1994 þannig að nýting hlunninda gengi ekki framar friðunarákvæði laga þegar starfshópur um svartfugla var starfandi?

3. Var starfshópurinn beinlínis stofnaður til að gera tillögu um lagabreytingar sem vitað var að væru nauðsynlegar vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu?

4. Hvaða rannsóknir eða upplýsingar eru fyrirliggjandi um að hlunnindanýting hafi afgerandi áhrif á afkomu svartfuglastofna?

5. Hvað eru margir svartfuglar veiddir af eigendum hlunninda og hvar?

6. Hefur ráðherra upplýsingar um að eigendur hlunninda umgangist þessa auðlind þannig að hætta stafi af?

7. Beitir ráðherra þeim úrræðum sem tiltæk eru í lögum til að vernda þessa stofna, t.d. með því að halda í skefjum afræningjum eins og tófu og mink? Ef ekki, af hverju? Hver er þáttur þessa afráns í viðgangi svartfuglastofnsins?