140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skipulag haf- og strandsvæða.

618. mál
[17:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar brýna fyrirspurn. Það er rétt sem fram kemur í orðum hans, þetta er málaflokkur sem þarf verulegrar endurskoðunar við og utanumhalds. 27. september 2010 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samráði við þá er hér stendur nefnd um skipulag framkvæmda á hafinu. Hlutverk þeirrar nefndar var tvíþætt, annars vegar að gera úttekt á lögunum og reglunum sem gilda um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni og hins vegar að meta þörf fyrir skýrari reglur þar um og skoða hvort ástæða sé til að setja löggjöf um skipulag strandsvæða.

Í nefndinni var breitt samráð. Þar sátu fulltrúar tilnefndir af ofangreindum ráðuneytum, þar að auki innanríkisráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin taldi nauðsyn að kalla enn fleiri að borðinu og þess vegna var settur á fót vinnuhópur sem í áttu sæti fulltrúar líka frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, Matvælastofnun, Orkustofnun, Siglingastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Þar að auki áttu fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga sæti í hópnum vegna sérstöðu þess landsvæðis. Hópnum var ætla að finna helstu vankanta við núverandi fyrirkomulag og koma með tillögur að því með hvaða hætti þessum málum væri best fyrir komið. Nefndin skilaði niðurstöðu 8. september 2011. Í henni kom fram að ekki væri til heildstæð löggjöf hér á landi um stjórn strandsvæða, en nokkrir lagabálkar tengjast málefninu. Það eru taldir upp 38 lagabálkar sem eru taldir tengjast stjórnun strandsvæða. Á Íslandi fara 11 undirstofnanir fjögurra ráðuneyta með meginábyrgð stjórnsýslu á íslenska strandsvæðinu. Ekkert ráðuneyti fer með yfirstjórn málaflokksins og sveitarfélögin hafa ábyrgð gagnvart framkvæmdum og athöfnum innan netlaga.

Nefndin taldi helstan galla á regluverki um framkvæmdir og athafnir með ströndum og í efnahagslögsögunni skort á heildarsýn yfir starfsemi á umræddu svæði og jafnframt skort á samráði stofnana. Nefndin lagði til að skoðað yrði hvernig væri hægt að samræma reglur betur og setja upp skýrari reglur þar sem heildarsýn og samræmd vinnubrögð væru betur tryggð en nú er. Þar er nefndur sérstaklega sá möguleiki að nota landsskipulagsstefnu eða þá hugmyndafræði sem hún byggir á til að setja fram skipulagsstefnu fyrir hafið af hálfu stjórnvalda.

Nefndin taldi afar mikilvægt að stjórnvöld mörkuðu skýra stefnu um málefni hafsins og færði þá stefnu yfir í áætlanir um einstök þemu með tilliti til nýtingar og verndunar. Nefndin mælti með stofnun starfshóps sem hefði það hlutverk að vinna að stefnumörkun um málefni haf- og strandsvæða. Einnig taldi nefndin mikilvægt að lagt yrði mat á það hvort nauðsynlegt væri að ein stofnun eða nefnd eða hópur færi með skipulagningu strandsvæða og að við skipulagningu væri litið til mismunandi hagsmuna af starfsemi sem fyrirhuguð væri og hún kortlögð.

Við skipulag á hafsvæði í löndunum í kringum okkur er staðið mjög mismunandi að málum. Í Danmörku nær skipulagsvald sveitarfélaganna eingöngu til landsins. Í Noregi geta sveitarfélögin skipulagt eina sjómílu út fyrir grunnlínu, en í Svíþjóð og Finnlandi nær skipulagsvald sveitarfélaganna út í 12 sjómílur en er háð skipulagsstefnu á landsvísu, þ.e. grunnstefnu. Bretar hafa sett sérstök lög um skipulag hafsvæða, Marine and Coastal Access Act frá 2009. Lögsaga sveitarfélaga í Hollandi til að mynda nær hins vegar einn kílómetra á haf út þannig að þetta er með nokkuð mismunandi sniði.

Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar er starfandi vinnuhópur sem vinnur að því að taka saman efni um skipulag hafsvæða á norrænni vísu. Ísland á fulltrúa í þeim hópi. Einnig er að störfum samráðshópur sem vinnur að undirbúningi umfjöllunar um skipulag hafsvæða í landsskipulagsstefnu, þ.e. vinnunni sem nú stendur yfir.

Í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur verið ákveðið að hefja undirbúning að vinnu við gerð lagafrumvarps þar sem gert verður ráð fyrir að yfirumsjón með skipulagi framkvæmda og athafna á hafinu verði á forræði ríkisins í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélag á strandsvæðum. Umhverfisráðuneytið mun hafa forræði á málinu og hafa í þessum undirbúningi náið samráð við viðkomandi ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og ekki síst þau sveitarfélög sem málið snertir eðli málsins samkvæmt frekar en önnur.