140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

skipulag haf- og strandsvæða.

618. mál
[17:12]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn fyrir góða umræðu og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þátttöku í henni. Ég held að við séum nokkurn veginn alveg á sömu fjöl hér, því að við erum í raun og veru að tala um að ná böndum yfir aðstæður sem hafa verið óviðunandi og óþægilega flóknar eins og hér kom fram. Allt að 11 stofnanir hafa með einhverju móti um málið að segja og undir fjórum mismunandi ráðuneytum sem bæði eykur flækjustig og gerir það líka að verkum að þeir sem hyggja á framkvæmdir eða atvinnustarfsemi á þessum svæðum mæta hugsanlega mismunandi afstöðu og mismunandi sýn. Það sem við erum að tala um hér er einföldun í grundvallaratriðum og samkvæmni. Þess vegna skiptir aðkoma ríkisins mjög miklu máli.

Ég deili hins vegar algjörlega þeirri sýn að náið samráð við heimamenn er grundvallaratriði í þessum efnum. Þess vegna höfum við lagt upp með þá nálgun að Samband íslenskra sveitarfélaga sé við borðið frá fyrsta degi, þ.e. í því hvernig þessari frumvarpssmíð verður fyrir komið. Þetta verður semsé samstarfsverkefni.

Ég vildi nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að nefna eitt atriði inn í þessa umræðu vegna þess að það hefur ekki fengið mikið rými, áhrif loftslagsbreytinga á mögulega hækkun sjávarborðs og þar með áhrif á strandsvæði. Þetta er algjörlega nýr þáttur sem við verðum að taka með í reikninginn varðandi allt skipulag byggða, vegagerðar og annarra framkvæmda á strandsvæðum vegna þess að við horfum fram á það að við komum til með að sjá verulegar breytingar á sjávarborði á allra næstu áratugum.