140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[17:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um neytendalán á þskj. 1137. Þetta er 704. mál þessa þings.

Í frumvarpi þessu sem var unnið af nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði er lögð til innleiðing á tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Tilgangur tilskipunarinnar er að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum hægara um vik að bera saman ólíka lánasamninga. Í þessari nefnd áttu sæti fulltrúar helstu hagsmunaaðila auk ráðuneytisins. Upplýsingar þar um koma fram í upphafskafla greinargerðar með frumvarpinu.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Frumvarpið fylgir að mestu leyti gildissviði nefndrar tilskipunar, 2008/48/EB. Þó eru fasteignalán sem áður og lán að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75 þús. evrum ekki undanskilin frá gildissviði frumvarpsins líkt og tilskipunin gerir ráð fyrir að geti verið. Aðildarríkjunum er frjálst að fella fleiri tegundir lánasamninga undir gildissvið laga við innleiðingu og er í frumvarpi þessu lagt til að það verði gert að hluta til áfram og að hluta til í enn ríkari mæli en áður hefur verið.

Frá árinu 2008 þegar lögum nr. 121/1994 var breytt með lögum nr. 179/2000 hafa fasteignalán fallið undir lög um neytendalán. Á sama tíma var tekin út undanþága vegna lánasamninga af hærri fjárhæð en 1,5 millj. kr. Þessar breytingar hafa gefið góða raun og er lagt til að fasteignalán falli innan gildissviðs þessa frumvarps og ekkert hámark verði á fjárhæðum. Þessi fjárhæð er í samræmi við það sem þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Þar falla lánveitendur sem veita lán með veði í fasteign til lengri tíma undir ákvæði laga um neytendalán.

Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010 og hefur veiting slíkra lána fallið utan núgildandi laga um neytendalán, nr. 121/1994. Lagt er til að undanþágur frá gildissviði laga um neytendalán verði þrengdar frá því sem nú er og ákvæði frumvarpsins gildi um öll neytendalán óháð fjárhæð, þar með talin smálán og önnur lán almennt, án tillits til gildistíma svo fremi sem þau rúmist ekki innan þeirra skilgreindu undanþáguákvæða sem er að finna í frumvarpinu og fjalla yfirleitt um lán til skemmri tíma og á hagstæðari kjörum en almennt gerist — trúlega er ekki mikil hætta á því að hefðbundin smálán komi þar við sögu.

Kröfur um upplýsingaskyldu lánveitenda eru nokkuð ítarlegri í frumvarpinu en þekkst hefur áður hér á landi. Gerð er krafa um ítarlegar upplýsingar í auglýsingum þar sem fjallað er um vexti eða önnur kjör vegna lánasamnings. Gerðar eru kröfur um vissar upplýsingar sem ber að veita fyrir samningsgerð og ákvæði um upplýsingar við samningsgerð eru ítarlegri en samkvæmt núgildandi lögum.

Tilskipunin kveður á um að vissar upplýsingar skuli ávallt veittar á stöðluðu eyðublaði sem fylgir með sem viðauki við tilskipunina, en eyðublaðið á að auðvelda neytendum að bera saman lánstilboð. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þeirri línu verði fylgt og ráðherra birti eyðublað í íslenskri þýðingu í reglugerð.

Tilskipunin gerir kröfur um að lánshæfi lántaka sé metið áður en gengið er frá lánasamningi, en aðildarríkjum er veitt ráðrúm til að ákveða sjálf með hvaða hætti matið fer nákvæmlega fram.

Lagt er til að framkvæmt verði hefðbundið greiðslumat vegna lánveitinga yfir ákveðinni fjárhæð, en vegna lægri fjárhæða verði svonefnt lánshæfismat látið nægja. Lagðar eru ákveðnar línur um framkvæmd greiðslu- og lánshæfismats í frumvarpinu, en gert er ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja ákvæði í reglugerð sem kveða nánar á um gerð slíkra mata.

Í frumvarpinu er fjallað um skyldur lánamiðlara sem eru aðilar sem veita milligöngu um lán eða ráðgjöf um lántöku. Slík ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum um neytendalán. Þær kröfur snúa m.a. að upplýsingagjöf til neytenda um hvert umboð lánamiðlara sé, einkum hvort hann starfi fyrir einn eða fleiri lánveitendur eða sem óháður miðlari. Jafnframt skal hann tilkynna neytanda um þóknun sem hann þiggur frá neytanda fyrir vinnu sína ef einhver er og skjalfesta samning við neytanda um þjónustu sína áður en gengið er frá lánasamningi.

Í frumvarpinu er fjallað um svokallaða tengda lánasamninga sem eru lánasamningar sem gerðir eru í þeim eina tilgangi að fjármagna kaup á tiltekinni vöru eða þjónustu. Í frumvarpinu er kveðið á um rétt neytanda til að falla frá tengdum lánasamningi ef hann nýtir rétt sinn til að falla frá viðkomandi samningum um kaup á vöru eða þjónustu.

Frumvarpið kveður jafnframt á um að í þeim tilvikum sem neytandi hefur ekki fengið fulla afhendingu samkvæmt ákvæðum samnings um kaup og hann hefur leitað úrræða til að fá úr því bætt gagnvart seljanda án árangurs þá skuli hann hafa rétt til að leita vissra úrræða gagnvart lánveitanda. Neytanda er í slíkum tilfellum heimilt að beita þeim úrræðum gagnvart lánveitanda sem hann gæti almennt beitt gagnvart seljanda, svo sem úrræði samkvæmt lögum um neytendakaup og almenn réttarfarsúrræði. Hann getur þó ekki krafist úrbóta eða nýrrar afhendingar í skilningi laga um neytendakaup og laga um þjónustukaup, enda væri slíkt óþarflega íþyngjandi kvöð gagnvart lánveitanda.

Vert er að taka fram að möguleikar neytanda til fullnustu gagnvart kröfuhafa takmarkast við fjárhæð lána á þeim tíma sem krafa um úrbætur er gerð. Hugsunin er því sú að neytandi þurfi ekki að halda áfram að greiða að fullu fyrir vöru eða þjónustu sem hann fékk ekki afhenta í samræmi við samning þó að ekki sé hægt að leita fullra efnda frá seljanda.

Þetta eru meginefnisatriði þessa frumvarps, virðulegur forseti, og ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.