140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru 13 dagar í þinglausnir. Við þekkjum hversu dýrt það getur verið að innleiða tilskipanir án þess að fara vel yfir þær. Ef það er vilji meiri hlutans að klára frumvarpið fyrir þinglausnir tel ég einsýnt að við gerum ekkert annað í þessari nefnd. Ég lít svo á að þá munum við væntanlega ýta öðrum málum frá. Svo mikið vitum við eftir að vera búin að fara í gegnum þetta í viðskiptanefndinni — hér er hv. þm. Eygló Harðardóttir sem hefur farið í gegnum þá vegferð alla á þessu kjörtímabili — þegar kemur að neytendaverndinni og lánasamningunum og öðru slíku. Við erum búin að fara í gegnum það að gengislánasamningarnir voru dæmdir ólöglegir, ég þarf ekki að fara í gegnum alla þá sögu, en það er ekki forsvaranlegt annað en að vinna þetta afskaplega vel af hálfu hv. þingmanna. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að þetta verði þá málið sem við verðum í í vor og verðum ekki í öðrum málum á meðan.