140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef enn meiri metnað fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar en síðasti ræðumaður. Ég trúi ekki öðru, í ljósi þess hversu vel og vasklega nefndin er skipuð, en hún geti nú fengist við eitthvað fleira en þetta mál fram að þinglausnum án þess að ég ætli að varpa nokkurri rýrð á það, það er mikilvægt að vinna það vel. Ég held að þau atriði sem aðallega er þó ástæða til að fara yfir séu nú ekki svo mörg, sérstaklega ekki mælt á mælikvarðann „frávik frá hinum almenna ramma tilskipunarinnar“. Ég held að það eigi ekki að taka langan tíma að skoða það.

Eðlilega munum við sjálfsagt staldra við smálánin og þá ákvörðun að taka þau hér inn undir. Ég held að við þurfum ekki að ræða mikið um fasteignalánin vegna þess að þau hafa verið flokkuð með neytendalánum og almennt talið að það gæfi góða raun.

Ég hef enga umræðu heyrt um það að við víkjum frá þeim útfærslum sem hafa verið við lýði og göngum lengra í átt til verndar neytendum. Það er þá (Forseti hringir.) spurning um það sem hér er verið að bæta við.