140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Já, ég er alveg tilbúinn til að fara á námskeið í djúpfræðum útreiknings á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og mundi þiggja leiðsögn hvaðan sem er, þar á meðal frá hv. þingmanni, í þeim efnum. En maður stekkur ekki alskapaður inn í alla skapaða hluti, það er heiðarlegast að segja bara eins og er að ég veit í grófum dráttum hvernig þetta er gert og ég veit hver grunnhugsunin er, hún er sú sem kom fram í máli hv. þingmanns að sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir, þegar menn taka lánið, um það hvað það felur í sér. Þess vegna eru þessi ítarlegu ákvæði hér í frumvarpinu um þær upplýsingar sem skuli liggja fyrir auglýstar í byrjun í öllu kynningarefni, upplýsingar sem skulu liggja fyrir áður en samningur er gerður og síðan upplýsingar sem skulu liggja fyrir þegar gengið er frá samningum. Allt gengur þetta út á hið sama, að tryggja rétt manna til upplýsinga.

Mismunandi dæmi um verðbólgu. Já, já, það er sjálfsagt hægt að hugsa sér það að menn þurfi að gefa upp einhver dæmi. Eins og ég segi, (Forseti hringir.) til dæmis með árlegan hlutfallskostnað, er náttúrlega fróðlegt að sjá smálánin reiknuð út í þeim formúlum og menn sæju þá kannski að verið er að fara fram á 600% vexti eða hvað það nú er. (Forseti hringir.)

Varðandi Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið eða Fjármálaeftirlitið þá hef ég ekki þá trú að það sé skynsamlegt að fara að búa til þriðja eftirlitið með fullum valdheimildum. (Forseti hringir.) Annaðhvort væri sameining betri kostur eða það þarf að vega það og meta hvaða (Forseti hringir.) völd Neytendastofa þarf að hafa.