140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna framlagningu þessa frumvarps. Það er ljóst að það tekur mjög á neytendavernd og á hana hefur skort hér á Íslandi á fjármálamarkaði.

Það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. ráðherra um: Nú kom fram í fréttum í morgun að hugmyndir innan stjórnkerfisins eru þær að halda Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka aðskildum áfram, ólíkt þeirri þróun sem er í öðrum löndum. Ég veit að nefnd hefur verið að störfum um þessi mál og tveir af þremur sérfræðingum þar og einnig þeir erlendu sérfræðingar sem að því koma eru á því að sameina eigi bankaeftirlit Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Ég hef lengi haldið því fram, alveg frá því í byrjun árs 2006, að sameina eigi bankaeftirlit Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans og skilja eftir mun minni stofnun sem sjái um neytendavernd og samkeppnismál. Það er nákvæmlega sú leið sem til dæmis er verið að fara í Bretlandi og í mörgum öðrum löndum.

Er hv. ráðherra þeirrar skoðunar að einn maður eða kona muni ná að hafa eftirlit með öllum fjármálamarkaði á Íslandi á fullnægjandi hátt þannig að ekki komi upp svona hlutir aftur eins og þessi ólöglegu gengislán og öll sú misklíð sem hefur orðið? Er hv. ráðherra þeirrar skoðunar?