140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei heyrt þá hugmynd fyrr að einn maður gæti annast allt það eftirlit sem hér á í hlut. Ef einn starfsmaður á að vera hjá Neytendastofu er náttúrlega enginn að tala um að allt eindaeftirlit á fjármálamarkaði verði fært þangað, það er náttúrlega enginn að tala um það. Að sjálfsögðu þurfum við öflugt fjármálaeftirlit í skilningnum eindaeftirlit sem fylgist með heilsufari hverrar fjármálastofnunar um sig. Við þurfum svo líka að fylgjast með kerfinu í heild sinni og kerfisáhættunni. Þessu þarf öllu að koma fyrir og um þetta þarf að búa. Það er auðvitað gert og stóð til að það væri gert hér á árum áður en gafst nú kannski ekki vel.

Ég mundi lýsa stöðunni varðandi Seðlabanka og Fjármálaeftirlit þannig að engar ákvarðanir hafi verið teknar til einhverrar langrar framtíðar, hvorki um sameiningu né heldur aðskilnað. En eins og málin eru að þróast er margt sem vísar í þá átt að ekki sé skynsamlegt að hrófla mikið við þessum tveimur stofnunum í bili. Fyrir því eru ýmsar praktískar ástæður. Báðar stofnanirnar eru hlaðnar verkefnum sem tengjast vonandi tímabundnu ástandi í okkar efnahagslífi og fjármálum, þær þurfa hins vegar að vinna vel saman. Þeim málum hefur verið komið í farveg með lögbundnum ákvæðum um samstarfssamning þeirra í milli sem er kominn á og virkar ágætlega, þannig að búið er að betrumbæta það og á að vera búið að girða fyrir að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gjörir, þannig að eindaeftirlitið, heildareftirlitið og fjármálastöðugleikayfirsýnin sé samræmd og þetta kerfi vinni saman. En við erum ekki komin alla leið í þeim efnum.

Eins og hv. þingmaður veit bíður hér umræðu, sem vonandi verður, stór skýrsla um framtíðarfyrirkomulag á fjármálamarkaði sem hefði verið ákaflega gott ef við hefðum fundið okkur einhvers staðar augnablik til að ræða, frú forseti, þrátt fyrir allar annir þingsins. Þar er mjög mikilvægt mál á ferðum sem við eigum eftir að klára. Þó ýmislegt hafi verið gert frá hruni eru ýmis verk óunnin líka, (Forseti hringir.) það er ljóst.