140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:21]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé núna hvað hv. þingmaður var að fara í þessum efnum og þá liggur það ljóst fyrir. Það er það mat sem fram kemur í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að það aukna eftirlit sem þetta frumvarp felur í sér kalli á einn viðbótarstarfsmann. Það þýði auðvitað ekki að engu eftirliti þar til viðbótar hafi verið sinnt. Ég veit að vísu að Neytendastofa hefði gjarnan þegið meiri fjárveitingar áður en þessar breytingar komu til, en þá er horfst í augu við það að þessum auknu eftirlitsskyldum þurfa að fylgja einhverjir fjármunir þannig að hægt sé að sinna því að einhverju lágmarki. Ég skildi þetta svo að hv. þingmaður væri að tala um stóra samhengið af því hann byrjaði á því að spyrja um Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið.

Ég hef ekkert skipt um skoðun í þessum efnum. Ég hef orðað það á þann veg að ég hafi, án þess að hafa kannski endanlega tekið afstöðu til þess, verið heldur hallur undir það að þetta ætti sennilega að sameinast, eða að minnsta kosti að fara saman í hús, þannig að gagnvegirnir væru greiðir og stutt væri á milli manna sem ynnu í (Forseti hringir.) fjármálaeftirliti, eindaeftirliti og Seðlabanka. Því mætti kannski fyrir koma praktískt án þess endilega að um fulla sameiningu yrði að ræða, enda yrðu þetta alltaf tveir aðskildir þættir jafnvel þó að þeir yrðu innan vébanda sömu stofnunar. (Forseti hringir.) Það held ég sé alveg ljóst, þar yrðu þá eldveggir á milli.