140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[18:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að fara aðeins í gegnum nokkrar greinar frumvarpsins og ítreka það sem ég nefndi í andsvörum við hæstv. ráðherra.

Ég ætla að nefna sérstaklega 10. gr. Eitt af því sem við þyrftum að skoða sérstaklega vel er lánshæfis- og greiðslumatið. Bæði hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddu það í sínum ræðum, þ.e. hvernig við getum tryggt að teknar séu vandaðri ákvarðanir þegar fólk skuldbindur sig. Hluti af því hlýtur að vera vandað lánshæfis- og greiðslumat. Þeir Íslendingar sem hafa búið annars staðar á Norðurlöndunum eða í Bandaríkjunum hafa margir nefnt að þegar þeir koma þangað er allt önnur menning sem varðar viðhorf fjármálastofnananna til þess að lána fjármuni. Þar þykir mun eðlilegra að fólk byggi upp ákveðna viðskiptasögu hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki með því að fá að stofna reikning og vera með reglulega innlögn, vera í föstu starfi og hafa sýnt fram á það í ákveðinn tíma að viðkomandi hefur ákveðna greiðslugetu.

Í Bandaríkjunum er haldin mjög viðamikil skrá utan um greiðsluhæfni fólks sem byggist meðal annars á því hvort fólk hafi staðið í skilum, t.d. hvort það borgar símareikningana sína á réttum tíma. Það eru ýmsir aðrir þættir en viðskipti við viðkomandi fjármálafyrirtæki. Ég sé síðan að það kemur fram varðandi 25. gr. hvaða reglugerðarheimildir ráðherra hefur. Það er sérstaklega talað um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats og ég held að það skipti mjög miklu máli að ráðherra fái skýr skilaboð frá löggjafarvaldinu um það hvað á að gilda varðandi nánari framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Eins og greinin er orðuð núna er tiltölulega óljóst á grundvelli hvers lánveitandi skal meta lánshæfi eða greiðslugetu lántaka.

Síðan vil ég nefna varðandi 18. gr. að þegar við fengum lauslega kynningu á málinu í efnahags- og viðskiptanefnd spurði ég meðal annarra hvort ekki væri of hátt viðmið að uppgreiðslugjald mætti ekki fara yfir 1% af fjárhæð endurgreiðslu ef lengri tími en eitt ár er á milli greiðslunnar og loka lánstíma samkvæmt samningi aðila. Ef tíminn er eitt ár eða minna má uppgreiðslugjaldið ekki fara yfir 0,5% af fjárhæð endurgreiðslunnar. Er þetta ekki of hátt viðmið? Þetta með uppgreiðslugjaldið er eitt af því sem ég held að nefndin þurfi að skoða mjög vel.

Mig minnir að Neytendastofa hafi fengið nokkrar kvartanir þegar fjármálafyrirtækin fóru að bjóða upp á fasteignalán. Eins og hæstv. ráðherra benti á hafa fasteignalán fallið undir löggjöf um neytendalán og þegar þau fóru fyrst inn á fasteignamarkaðinn komu ýmsar athugasemdir frá lántökum vegna viðskipta þeirra við fjármálafyrirtækin og síðan hafa líka verið settar reglur um uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við veltum þessum prósentutölum mjög vel fyrir okkur og fáum rökstuðning fyrir því hvernig þessar tölur eru ákveðnar. Því miður virtist það ekki vera alveg nógu skýrt af hálfu ráðuneytisins þegar farið var í gegnum kynninguna.

Í andsvörum mínum hef ég líka nefnt sérstaklega mikilvægi þess að nefndin fari mjög vel yfir 21. gr. Það hefur verið gerð athugasemd við þessa árlegu hlutfallstölu kostnaðar og samspil hennar við lög um vexti og verðtryggingu. Menn hafa síðan verið að velta fyrir sér hvort þetta stangist hugsanlega á við þær tilskipanir frá Evrópusambandinu sem eiga að tryggja neytendaverndina þannig að það þarf að vera mjög skýrt í lagatextanum hvernig á að standa að þessum útreikningi. Við brenndum okkur ansi illilega á því að meiri hluti þingsins samþykkti að vera ekki með það nákvæmlega útreiknað fyrir fram af þingnefndinni hvernig ætti að standa að svona útreikningi þegar kom að lögum nr. 151/2010, um endurútreikning gengistryggðra lána. Þeir útreikningar sem nefndarmenn fengu þegar verið var að keyra frumvarpið í gegnum þingið reyndust síðan ekki stemma við það hvernig ráðuneytið seinna meir túlkaði lagatextann. Það hefur haldið því fram að fjármálafyrirtæki hafi mjög mikið svigrúm sjálf til að túlka lögin sem Alþingi setti um málið. Það var alls ekki að mínu mati í samræmi við þann skilning sem þingmenn höfðu þegar verið var að samþykkja lögin. Þetta þarf að vera mjög skýrt.

Ég legg líka áherslu á að þó að þetta sé fasta reglan til að reyna að upplýsa neytendur um þá áhættu sem tengist verðtryggðum lánum held ég að mjög brýnt sé að fjármálafyrirtækin þurfi að leggja fram einhverja frekari útreikninga sem sýni til dæmis áhrifin af því ef verðbólga hækkar um 10% umfram það sem hún er í dag eða ef hún lækkar. Til dæmis mætti sýna spá Seðlabankans þó að það sé líka ágætt að benda á að spá Seðlabankans hefur almennt ekki staðist frá því að verðbólgumarkmiðin voru tekin upp.

Ég nefndi 27. gr. í andsvari við hæstv. ráðherra, um eftirlits- og ákvarðanavald Neytendastofu. Í lögunum um Neytendastofu sést að hún hefur miklar valdheimildir. Það ferli sem neytendur þurfa að fara í gegnum, óska eftir úrskurði, fara síðan fyrir áfrýjunarnefnd neytendamála og þegar það liggur fyrir geta neytendur höfðað einkamál til að fylgja eftir úrskurði Neytendastofu, er flókið. Neytendastofa hefur úrskurðað í hag neytenda og fjármálafyrirtæki hunsað þann úrskurð. Það eina sem neytandi hefur þá haft möguleika á að gera er að höfða mál og það að fara með mál frá héraði upp í Hæstarétt getur kostað alveg upp í 1,5–2 millj. kr. Við erum að fjalla um fjármálaafurðir og þegar ágreiningur er þar á milli hallar mjög á neytandann í valdajafnvæginu hvað varðar fjármuni og styrk fjármálafyrirtækis andspænis einstaklingi, neytandanum. Þess vegna ítreka ég að það skiptir verulega miklu máli að við förum mjög vel yfir eftirlits- og ákvarðanavald og valdheimildir Neytendastofu til að hún geti framfylgt því sem við erum að leggja hér til að hún geri. Ef ekki er hægt að tryggja að lögunum sé framfylgt eru þau vitagagnslaus. Ég var ekki sérstaklega að tala um að Neytendastofa væri bitlaus í því hvernig hún sinnir hlutverki sínu heldur að hún hefur ekki tæki til að framfylgja þeim lögum sem hún á að framfylgja.

Síðan lýsi ég ákveðnum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra við spurningum mínum um það hvort ekki þyrfti að setja almennar leikreglur um fasteignalán. Ég held að það sem seðlabankar allra hinna vestrænu ríkja hafi lært í hruninu eftir að Lehman Brothers hrundu, eftir fasteignabóluna í Bandaríkjunum og víðar, Spáni og mörgum öðrum löndum, sé að fasteignabólur ógna mun meira fjármálalegum stöðugleika viðkomandi ríkja en til dæmis hlutabréfabólur. Miklu lægra hlutfall af heimilum þarf að taka þátt í þessum bólum til að það sé farið að ógna fjármálalegum stöðugleika. Þeir sem eiga í viðskiptum á hlutabréfamarkaði nota yfirleitt ekki þá fjármuni sem þeir eru að nýta til almennrar neyslu, til að lifa af, en aftur á móti með heimilin eru fasteignalánin þeirra stærsta einstaka fjárfesting. Við sáum hvaða áhrif gengistryggðu lánin höfðu á samfélagið í heildina, tæplega 10% heimilanna voru með gengistryggð lán og þegar greiðslubyrðin jókst svona gífurlega margfölduðust áhrifin í efnahagslífinu. Ég hef saknað þess að við höfum ekki séð tillögur eins og Seðlabankinn sjálfur kallaði eftir i skýrslu sinni um peningastefnuna eftir höft, um það að setja það sem þeir kalla þjóðhagsvarúðartæki sem varðar reglur um veðhlutföll og lánalengd. Við höfum lagt fram tillögur í frumvarpi okkar um hvernig við eigum að afnema verðtrygginguna og lækka vexti vegna þess að það skiptir gífurlega miklu máli til að búa til betra umhverfi fyrir efnahagsstjórn á landi að það séu settar skýrar reglur.

Stór mistök voru gerð í aðdraganda hrunsins á Íslandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var einmitt bent á þau mistök sem voru gerð varðandi fasteignalánamarkaðinn. Ég tel hins vegar að stærstu mistökin þar hafi ekki endilega út af fyrir sig verið að bjóða upp á 90% lán hjá Íbúðalánasjóði. Við getum tekið þá umræðu síðar. Vandinn var að við skyldum ekki setja almennar reglur fyrir öll fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð hvað varðar veðhlutfallið og lánahlutfallið. Það voru settar reglur fyrir Íbúðalánasjóð varðandi hámarksupphæð lána. Ég er ekki endilega að hvetja til þess að það sé gert fyrir fjármálafyrirtækin almennt en það þarf að setja reglur í samræmi við það sem þekkist í Danmörku, fasteignalánalögin þar. Þar eru settar ákveðnar reglur um veðhlutfall og lánatíma á íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði, sumarbústaði og annað og líka kaup á jörðum. Þetta er það sem ég benti á að skiptir verulega miklu máli ef við ætlum að tryggja raunverulega neytendavernd og þá ekki hvað síst hvað varðar þessa stærstu einstöku fjármálaákvörðun sem hvert og eitt heimili tekur, það sem hefur hvað mest áhrif á stöðu bæði einstakra heimila og á fjármálastöðugleikann hér á landi. Þetta er eitt af því sem ég mun ræða við vinnslu málsins innan efnahags- og viðskiptanefndar en ég hef líka mikinn áhuga á að heyra hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér um að það sé brýnt að skoða þetta.