140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar farið er yfir þetta mál rifjast ýmislegt upp fyrir manni. Ég vil því nota tækifærið og spyrja aðeins um reynslu hv. þingmanns af því þegar gengið var frá hinum frægu lögum nr. 151/2010. Þá lá mikið á og niðurstaðan varð sú að lagasetningu sem átti að skýra stöðuna og einfalda málið er búið að flækja þannig að við sjáum ekki einu sinni fram úr því.

Ég sá það í vefmiðlinum Pressunni að mönnum finnst þögn bankanna vera æpandi, eðlilega, varðandi þessi lán, en við höfum fengið upplýsingar um það í þinginu að ef allt gengur upp sjáum við einhverja niðurstöðu í þessum málum í fyrsta lagi næsta haust. Það er að stærstum hluta vegna þess að hér var unnið allt of hratt og málið var ekki unnið almennilega.

Þetta var ekki tekið fyrir einhverra hluta vegna í hv. viðskiptanefnd á sínum tíma. Ef ég man rétt var málið keyrt gegnum efnahags- og skattanefnd og ef ég man líka rétt sat þar hv. þm. Eygló Harðardóttir. Og af því að hér er verið að ræða þetta risamál, sem hefur áhrif á alla Íslendinga, mundi ég vilja að hv. þingmaður rifjaði aðeins upp fyrir okkur hvernig staðið var að þessu máli þar og hvaða lærdóm hún telur að við ættum að draga af því. Ég spyr hv. þingmann, af því að við erum að fjalla um þetta frumvarp sem ég bind miklar vonir við, hvort hún meti það ekki svo að það skipti máli að vanda sérstaklega til verka.