140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði. Þetta eru engin smámál sem við erum að taka fyrir núna til 1. umr., ég held að allir þingmenn hafi upplifað svekkelsi og vonbrigði þegar þeir horfðu á skjalabunkann sem var hér í hliðarsal þegar fresturinn til að leggja fram þingmál til afgreiðslu á þinginu rann út. Þarna voru mál sem hefðu að mínu mati getað komið inn fyrir löngu síðan, þarna eru mörg mál sem hafa jafnvel verið lögð fram áður og ekki voru gerðar þær meiri háttar breytingar á að ekki hefði verið hægt að leggja þau fram fyrr. Þessir starfshættir eru fullkomlega óásættanlegir.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að til dæmis 10. málið á dagskrá þessa fundar er mál sem ég tel skipta miklu máli. Þetta er frumvarp frá efnahags- og viðskiptanefnd og þar eru sett inn ákvæði til að tryggja betur rétt einstaklinga til að höfða mál í fordæmisgefandi málum. Það er raunar verið að tryggja fólki gjafsókn í því. Ég nefndi einmitt í ræðu minni þennan mismun á stöðu annars vegar fjármálafyrirtækja og hins vegar neytenda þegar kemur að því að halda uppi vörnum fyrir sínum málstað þannig að þarna eru ákvæði sem munu skipta máli hvað það varðar.