140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í þeim andsvörum sem var að ljúka eru þau vinnubrögð sem við erum að verða vitni að algerlega óboðleg. Í dag voru greidd atkvæði um hvort þingfundur ætti að standa lengur en þingsköp segja til um og ef mig misminnir ekki greiddu 27 þingmenn stjórnarliðsins því atkvæði. Ég spyr: Hvar eru þessir hv. þingmenn núna?

Ég heyrði á tal eins stjórnarþingmanns við þingflokksformann annars stjórnarflokkanna sem spurði hvort yrðu fleiri atkvæðagreiðslur. Nei, var svarað. Fínt, þá get ég farið. — Ég ætla ekki að nefna landsvæðið vegna þess að þá þrengist hópurinn.

Mér finnst þetta algerlega óboðlegt, frú forseti, og ég vil spyrja hæstv. forseta hversu lengi þingfundur á að standa vegna þess að þeir 27 þingmenn sem greiddu þessu atkvæði eru ekki hér. Mér reiknast til að það séu 10 stjórnarþingmenn í húsinu og við erum hér með stórmál undir (Forseti hringir.) og það er algerlega óboðlegt að svona fundur skuli vera haldinn þvert ofan í það sem starfsáætlun segir til um kvöldið fyrir frídag þegar menn eru búnir að gera ráðstafanir. (Forseti hringir.) Það eru ekki allir jafnheppnir og stjórnarþingmaðurinn sem ég ræddi um, að geta bara haldið sínum áformum til streitu.