140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um það áðan að undirbúa þyrfti góða og vandaða meðferð í nefndum. Ég hef litið þannig á að 1. umr. væri að minnsta kosti upptakturinn að því. Þá hefði maður getað gert ráð fyrir því að þegar um er að ræða tvö mál sem eiga að fara til atvinnuveganefndar, væri að minnsta kosti einn þingmaður úr stjórnarliðinu úr atvinnuveganefnd viðstaddur. En það vill þannig til að ekki er einn einasti þeirra úr hópi atvinnuveganefndar viðstaddur þessa umræðu (ÁI: Er það neytendamál?) Það mál sem er til umræðu á eftir. Ég bið hv. þingmann að vera ekki alltaf að grípa fram í með þessum hrokafulla hætti. Það er auðvitað einsdæmi að boðað skuli vera til þessa fundar eftir fyrirspurnir og eins og staðið hefur á eins og allir vita.

Í öðru lagi, sem liggur líka fyrir — hv. þingmaður rýkur nú úr salnum og vill auðvitað ekki hlusta á sannleikann í málinu — er auðvitað mjög sérstakt að velja til þess kvöldið fyrir 1. maí. Það var reynt í fyrra (Forseti hringir.) að láta þingið starfa inn í sjómannadagshelgina. Við gátum komið í veg fyrir það með látum og þá loksins sá ríkisstjórnin ljósið (Forseti hringir.) en nú er það að endurtaka sig, nú er hv. stjórnarmeirihluti (Forseti hringir.) að efna til kvöldfundar með algerlega óeðlilegum hætti.