140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að koma hingað upp og ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hef ekki heyrt neinn af þeim sem hér hafa talað reynt að rökstyðja að það sé skynsamlegt og gáfulegt að hafa 1. umr. með þessum hætti, að hér séu örfáir þingmenn í húsi og afar fá sjónarmið komi fram. Enginn hefur heldur mótmælt því að á þessum fundi stefnir í að Alþingi sé afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina. Það er mjög óeðlilegt. Við eigum fyrst og fremst að vanda okkur við lagasetningu. Ein leið til þess er meðal annars sú að við 1. umr. komi öll sjónarmið fram sem nefndin þarf að íhuga og hugsanlega bregðast við og þá er einnig hægt að ræða við ráðherra. En það er ekki raunin hér. Ef við teljum hve margir þingmenn eru í húsi til þess ráðaskrafs sem við þurfum að fara í, (Forseti hringir.) og það eru mörg stórmál sem bæði hafa verið á dagskrá og eiga að vera á dagskrá í kvöld, þá eru þetta ekki forsvaranleg vinnubrögð, frú forseti.