140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðum um þetta mál. Allir hafa lýst ánægju sinni með að það sé komið fram og þann megintilgang þess og markmið að treysta neytendavernd á þessu sviði. Það eru aðeins örfá atriði sem ég staldra við sem að mér hefur verið beint.

Í fyrsta lagi áttum við nokkrar umræður um 21. gr. um útreikning á svonefndri árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Ég upplýsti að ég teldi mig engan sérstakan sérfræðing í því og hef uppskorið umfjöllun í framhaldinu. Ég var þar meðal annars að vísa til þess, sem kemur fram í greininni, að til fyllingar lagatextanum er gert ráð fyrir að tiltekið stærðfræðilíkan sé gefið út með reglugerð þar sem hin reikningslega aðferðafræði er útlistuð og fest í sessi. Ég er til dæmis ekki með í höfðinu það stærðfræðilíkan, svo að það sé nú sagt alveg eins og er, en ég hef séð það, séð myndir af því. Lagatextinn sjálfur þarf hins vegar að ramma þetta af eins og bæði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Eygló Harðardóttir komu inn á. Ef menn telja að ganga þurfi enn rækilegar frá hlutum en þarna er gert veður það að sjálfsögðu skoðað en ég hygg að sumt af því sem þar var rætt sé meiri spurning um hvort það eigi erindi inn í upplýsingaefnið og/eða þá reglugerð sem mönnum verður þá gert að vinna samkvæmt til fyllingar lagatextanum sjálfum.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vék að smálánunum og lýsti eins og fleiri ánægju með að á þeim yrði tekið. Síðan ræddi hann neytendavernd á fjármálamarkaði og það leiðréttist sá misskilningur að ég hefði talið hana vera með einhverjum ágætum. Það held ég að ég hafi ekki sagt. Ég held þvert á móti að það hljóti að verða að viðurkennast að hún var fljótandi og í miklu andvaraleysi á árum áður og það var með það eins og fleira að því var kannski ekki mikið sinnt á meðan menn töldu að allt léki í lyndi. Það var til dæmis athyglisvert, af því að gjaldeyrislán voru nefnd til sögunnar, að skýringin á því að það viðgekkst jafnlengi og raun bar vitni er væntanlega sú að enginn gerði athugasemdir á meðan það fyrirkomulag var mönnum hagfellt. Það er ekki fyrr en syrtir í álinn sem menn fara að velta þeim möguleika fyrir sér að komast undan þeim lánum á grundvelli þess að þau kunni að vera ólögmæt. Það segir svo sína sögu aftur um það að auðvitað á svona lagað ekki að geta gerst og öflug neytendavernd og öflugt eftirlit á náttúrlega að taka á slíku.

Hvernig því á að vera fyrir komið umfram það þá að efla Neytendastofu og þau tæki önnur sem koma við sögu — við erum auðvitað með talsmann neytenda, við erum með stéttarfélög, sem hafa oft beitt sér í þessum efnum og gera í sambandi við ýmis almenn neytendamál, neytendasamtök og síðan auðvitað opinbera eftirlitsaðila sem eiga að minnsta kosti að tryggja, eins og Fjármálaeftirlitið, að farið sé að leikreglum.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir vék sömuleiðis að 10. gr. eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði áðan um lánshæfis- og greiðslumat. Það er auðvitað gert alveg skýrt hvar mörkin liggja í sambandi við fjárhæðir og form láns að lánshæfismat taki þá til minni fjárhæða en greiðslumat sé framkvæmt ef lánveiting fer umfram 1 millj. kr. hjá einstaklingi eða 2 millj. kr. hjá hjónum. Almennt gildir að sjálfsögðu greiðslumat t.d. um fasteignalán sem eru oftast á þeim fjárhæðum. Þarna er um að ræða annars vegar hið einfaldara form þar sem menn reiða fyrst og fremst fram upplýsingar um eignir sínar og tekjur en ekki er farið út í útreikninga á greiðslugetu beinlínis með sama hætti og þegar greiðslumatið sjálft er framkvæmt.

Við höfum auðvitað orðið nokkra reynslu af þessu. Þetta kom í áföngum inn í lög hjá okkur og sérstaklega þá greiðslumatið, tengdist lánveitingum þar sem sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna eða lánsveð komu við sögu og væntanlega þá í og með líka til að verja þá sem gengust í ábyrgð eða lánuðu veð og síðan á grundvelli samkomulags sem tókst milli aðila árið 2001 og þetta var enn frekar fest í sessi með lagabreytingum á árinu 2009. Hér er sem sagt gerður skýr greinarmunur á þessu tvennu, hinu einfaldara formi, greiðslumatinu, og lánshæfismatinu sem er víðtækara hugtak þar sem leitast er við að sannreyna, getum við sagt, bæði greiðsluvilja og greiðslugetu.

Þetta er auðvitað hefðbundið. Hv. þm. Eygló Harðardóttir ræddi líka muninn á hefðum á Íslandi og í nálægum löndum. Ég held að það sé alveg rétt að á árum áður var lánveitingum kannski hagað á dálítið öðrum grunni og mjög oft voru það þá veð eða ábyrgðir sem skiptu sköpum um það hvort menn fengu lánin en ekki endilega djúpstæðar rannsóknir á viðskiptasögu viðkomandi aðila eða það að menn reyndu að sannreyna greiðsluhæfi hans. Sjálfsagt þekkja margir muninn á þessu. Þeir sem hafa verið í námi eða búið á öðrum Norðurlöndum geta sjálfsagt margir sagt af því sögur að það var ólíku saman að jafna á Íslandi á köflum og til dæmis í Svíþjóð eða Noregi. Menn löbbuðu ekki inn af götunni, skrifuðu undir einhverja pappíra og út með bíllykla svo létt í þeim löndum á sama tíma og menn gátu það iðulega á Íslandi. Þar var lagst í býsna miklar rannsóknir á viðskiptasögunni ef hún var til staðar. Ef ekki, ef hún var stutt, ef viðkomandi aðili var nýlega fluttur til landsins og átti sér ekki langa sögu í viðskiptum við viðkomandi banka, var farið í ítarlegri rannsóknir á tekjum og öðru slíku. Markmiðið var auðvitað að lánveitingarnar væru við hæfi og líkur væru á því að lánin fengjust greidd. Með öðrum orðum, þetta snýst líka um traust og um þá sögu sem menn geta fært með sér í viðskiptum við sína fjármálastofnun.

Hér var á köflum kannski ekkert síður algengt að menn færðu sig til á milli lánastofnana í leit að því að betur byðist, að mönnum væru þá veitt meiri lán á frjálslegri forsendum en kannski þar sem þeir höfðu ekki fengið slíka úrlausn. Ég held að þetta hafi breyst mjög verulega og vil trúa því að almennt séu vinnubrögðin að nálgast miklu meira það sem best má telja og að dregið hafi úr þeirri miklu áherslu á að horfa meira á tryggingarnar en þess í stað á getu manna til að greiða lánin, standa undir þeim.

Varðandi 18. gr. og uppgreiðslugjaldið þá má ugglaust lengi ræða það hvað sé hóflegt í þeim efnum. Hér er samt settur tiltölulega strangur rammi í 18. gr. og þetta teldist sjálfsagt í mörgum tilvikum fremur lág þóknun fyrir uppgreiðslurétt á lánum sem þarna er settur rammi um. Að sjálfsögðu má það allt saman ræðast við hvað eigi að miða í þeim efnum. Aðalatriðið er að mikilvægt er að festa í lagaramma um það eins og annað þannig að menn séu varðir fyrir einhverjum slíkum ákvæðum í lögum og að sjálfsögðu eru slík viðmið í eðli sínu hámark. Það er ekkert sem bannar mönnum að bjóða þjónustu fyrir eitthvað lægra gjald.

Ég er búinn að nefna 21. gr. og spurninguna um það þar hversu ítarleg ákvæði eiga erindi nákvæmlega inn í lagatextann sjálfan og hvað heppilegra er að útfæra í reglugerð sem snýr að hreinni stærðfræði og öðru slíku. Að sjálfsögðu er hægt að setja áskilnað um að sýna einhver dæmi í tilviki verðtryggðra lána fremur en þau að reikna lánið út frá stöðu augnabliksins og gera ráð fyrir því að aðstæður haldist stöðugar. Að sjálfsögðu má reikna fráviksdæmi en vandinn er auðvitað sá að það er ekki bara verðlagsþróunin ein sem þarna kemur við sögu, slæm sem auðvitað verðbólga er og augljóst að hægt er að reikna út hvaða áhrif það hefur á verðtryggt lán ef verðbólga er svo og svo mikil, en það er auðvitað hitt, sem er enn hættulegra, ef misgengi verður milli verðlagsþróunar, eða verðbólgu og launaþróunar. Það er þá sem vandinn virkilega ber að dyrum, ef menn lenda í slíku, og það er sjálfsagt erfitt að setja beinlínis upp dæmi um slíkt.

Ég vil taka það fram, vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um einhvers konar rammalöggjöf um fasteignaveðlán, að ég er síður en svo að útiloka eitt eða neitt í þeim efnum. Það kann vel að vera að til þess sé ástæða að skoða það sérstaklega að setja ramma um sumt af því sem hv. þingmaður nefndi, svo sem eins og veðsetningarhlutföll og annað í þeim dúr. Ég er svo innilega sammála hv. þingmanni að fasteignabólur eru bæði stórskaðlegar og stórhættulegar. Þær geta leikið viðkomandi fasteignaeigendur og þá sem eru að reyna að koma sér upp húsnæði afar grátt en þær eru líka stórvarasamar frá sjónarhóli fjármálastöðugleika eins og dæmin sanna og eru í raun mjög hættulegar vegna þess að á meðan þær eru að skrúfast upp þá lítur dæmið freistandi og vel út. Á meðan veðrýmið vex og vex og eign á pappírunum í fasteign myndast er hætt við því, eins og dæmin sanna, að aftan að mönnum læðist tilhneiging til aukinnar skuldsetningar í trausti þess að veð og eign standist á móti. Ekki þarf að leggjast í miklar rannsóknir til að sjá að þetta er ein af stóru ástæðunum fyrir óstöðugleikanum í efnahagsmálum Vesturlanda. Þetta blasir við þegar Ísland, Írland, Bandaríkin og Spánn eru skoðuð og sumir hafa af því hvað mestar áhyggjur um þessar mundir að hugsanlega sé fasteignabóla að skrúfast upp í Kína sem geti endað með ósköpum. En við skulum sjá til með það.

Þetta er því vel þekkt hætta. Þetta átti sinn þátt í erfiðleikum hinna Norðurlandanna á tíunda áratugnum og er virkilega ástæða til að vera á varðbergi gagnvart slíku. Allur glannaskapur í útlánum af þessu tagi er varasamur og þegar viðvörunarbjöllurnar fara að hringja, eins og þær gerðu auðvitað á löngu árabili á Íslandi þegar skuldsetning heimilanna var vaxandi og við vorum að nálgast heimsmet í þeim efnum, hefðu menn frekar átt að reyna að taka í taumana en auka þá enn aðgengi manna að lánsfé og hækka lánshlutföll. Auðvitað voru þar gerð mjög mikil mistök sem kosta okkur verulega núna. Sumir hafa sagt, með nokkrum rétti, að það sé lán í óláni landsbyggðarinnar að bólan skrúfaðist ekki upp með sama hætti þar og hún gerði á mestu þenslusvæðum landsins.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég þakka þingmönnum fyrir þátttöku í henni og vona og veit að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun taka þetta mál til gagngerrar skoðunar enda allir sem hafa tekið þátt í umræðunni lýst því yfir að þeir telji að um mikilvægt mál sé að ræða sem sé til úrbóta á viðkomandi sviði.