140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og svör við ýmsum spurningum sem þarna komu fram. Ég spurði hæstv. ráðherra um muninn á greiðslu- og lánshæfismatinu sem er gert ráð fyrir og er ágætlega skilgreint hér í þessu frumvarpi og þeirri framkvæmd eins og hún er í dag. Nú skal ég alveg viðurkenna að ég þekki það ekki nákvæmlega en ég efast ekkert um að hæstv. ráðherra sé með það á hraðbergi. Mér sýnist að þetta sé eins og maður getur ímyndað sér að þetta sé hjá bönkunum núna. Ef menn taka stærri lánin eins og fasteignalán fara menn í gegnum greiðslumat eins og menn þekkja. Lánshæfismatið er fyrst og fremst það að menn eru bara að kalla eftir upplýsingum úr gagnagrunnum um viðkomandi einstakling áður en hann fær lán og ég get einhvern veginn ímyndað mér að það sé gert þannig í dag. Tæplega fá viðkomandi einstaklingar lán út á andlitið á sér eingöngu.

Síðan vil ég gjarnan heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér eftirlitsstofnanirnar. Það hefur komið fram mjög hressilega í þessari umræðu að neytendavernd og eftirlit með henni á íslenskum fjármálamarkaði er í algjörum lamasessi, ég held að allir séu sammála um það sem það hafa skoðað. Það eru samt mjög miklir fjármunir sem fara í eftirlit sem hefur víst ekki nýst sem skyldi. Hér hafa menn bent á að margt virðist benda til þess að það væri til dæmis skynsamlegt að sameina Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið og þá Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann (Forseti hringir.) og vera fyrir vikið með sterkari neytendavernd í fyrrnefndum stofnunum.