140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa aðallega í athugasemdir við 10. gr. frumvarpsins varðandi útlistun á muninum á greiðslumati og lánshæfismati. Þar er það skilgreint, og greiðslumatið held ég að sé nokkuð vel þekkt. Flestir sem starfa á fasteignalánamarkaði hafa sett sér reglur um greiðslumat og það á sér þá sögu, sem ég rakti í minni seinni ræðu hér, að vera sprottið upp úr farvegi þess þegar ábyrgðarveitingar áttu í hlut þannig að greiðslumatið er nokkuð vel þekkt fyrirbæri. Lánshæfismatið er hins vegar tilraun til að setja ákveðinn ramma um einfaldari afgreiðslu á lánum af lægri fjárhæð þar sem þó er í raun um víðtækara hugtak að ræða. Það er fleira sem menn geta tekið inn í myndina þegar þeir reyna með einföldum hætti að meta lánshæfi manna. Greiðslumat er reikningsleg aðgerð sem þarf þá að taka tillit til allra aðstæðna, tekna og áætlaðrar framfærslu og reyna að meta afganginn sem líklegur sé hjá viðkomandi aðila til þess að geta staðið undir greiðslubyrði af láninu enda um hærri fjárhæðir að ræða. Lánshæfismatið á við þar sem kannski minni fjárhæðir eru á ferðinni en engu að síður vilja menn eftir því sem kostur er með einföldum hætti kanna líkurnar á því að viðkomandi lán endurgreiðist.

Varðandi eftirlitsstofnanirnar hafa menn svo sem rætt um það hvort til dæmis neytendamálin og eftirlitsmálin ættu að stokkast upp í talsvert ríkari mæli en gert hefur verið fram að þessu. Það er alveg rétt að það eru margir þátttakendur inni í þessu að hluta til, (Forseti hringir.) Neytendastofa, Neytendasamtökin, talsmaður neytenda og síðan vísaði ég líka til þess sem er á hendi stéttarfélaga og hinna opinberu eftirlitsstofnana. Það þarf að gera greinarmun á aðhaldi annars vegar úti á markaðnum (Forseti hringir.) sem mikilvægt er að sé sinnt og hins vegar hinu opinbera eftirliti sem er lögbundið og fer eftir slíkum ferlum.