140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef svo ólíklega vill til að ég tali aðeins of lengi mælist ég til að ég fái ráðherrabjöllu, það er miklu þægilegra en sú háværa bjalla sem maður fær alla jafna hér. Hún sker svolítið í eyrun, en ég skal lofa að fara eins hratt og ég get úr ræðustólnum ef svo ólíklega vill til að ég gleymi mér.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil það þannig að greiðslumatið sé í rauninni bara eins og það er í dag og lánshæfismatið er kannski það nýja. Þó mundi ég ætla, miðað við lýsinguna þarna, að þá sé þetta eins og þetta er framkvæmt í dag. Mér finnst að minnsta kosti ótrúlegt ef það eru veitt mikil lán án þess að kanna neitt stöðu viðkomandi einstaklinga, viðskiptasögu eða kalla eftir upplýsingum frá Lánstrausti eða öðru slíku. Það væri ágætt að fá það fram.

Síðan held ég að það sé afskaplega mikilvægt að við svörum því hvernig við viljum sjá eftirlitið með neytendavernd á fjármálamarkaðnum. Við sjáum núna, virðulegi forseti, að þau mál sem hafa náð í gegn neytendum til hagsbóta hafa kostað mjög mikla fjármuni, í lögfræðikostnað og annað slíkt. Alla jafna hefur fólk ekki slíkt á milli handanna, ég tala nú ekki um ef það er í miklum skuldavanda. (Gripið fram í.) Ég man í fljótu bragði ekki eftir máli þar sem allar þær eftirlitsstofnanir, þær litlu og dreifðu sem eru til staðar, hafi komið til og aðstoðað skuldara. Ekki hef ég tekið eftir því og hef ég fylgst betur með þessu en flestir þar sem ég sat í hv. viðskiptanefnd og sit núna í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel afskaplega mikilvægt að við stokkum þetta kerfi upp.