140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég er alveg tilbúinn að fallast á að það sé ástæða til að fara yfir þessi mál og ræða skipulagið vil ég heldur ekki gera of lítið úr þó þeim úrræðum sem til staðar eru. Það er rétt að minna á að ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð þar. Það má skjóta ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála sem er virk og starfar á grundvelli laga um Neytendastofu og talsmann neytenda. Uni menn ekki niðurstöðum áfrýjunarnefndar er að sjálfsögðu hægt að fara áfram með slíkt mál til ógildingar fyrir dómstólum. Það er farvegur fyrir slík ágreiningsmál, og þeim sem fara þessa leiðina hefur fjölgað í ljósi ástandsins á undanförnum missirum. Áfrýjunarnefndin er mikilvægur vettvangur, og mikilvægur réttur sem menn eiga í þessum efnum er að bera ágreining um neytendamál upp þar.