140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað þarf að hyggja að því bæði með tæki eins og vaxtabætur og húsaleigubætur að það hefur ákveðin efnahagsleg áhrif. Það er alveg rétt, en það má ekki gleyma því að í báðum tilvikum er um tekjutengdar bætur að ræða, a.m.k. í grunnkerfinu, jafnvel verulega tekjutengdar. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar sem stuðningur við tekjulægri fjölskyldur vegna húsnæðiskostnaðar, eigin íbúðaröflunar eða leigu. Þær hafa vissulega áhrif og má færa fyrir því rök að vaxtabætur upp að vissu marki geti aukið útlán vegna þess að greiðslugeta manna til að ráða við þau vex. Með sama hætti hefur því oft verið haldið fram að þegar húsaleigubætur hafa verið hækkaðar snögglega leiði það til hækkunar á leigu og þá hirði menn meira til sín í leigunni.

Síðan nefndi hv. þingmaður áhugaverðan hlut, skipulagsmálin og það hvernig þetta var hugsað, t.d. á suðvesturhorninu, og hvers konar kapphlaup brast á um hönnun nýrra hverfa og úthlutun lóða. Það var ekki mjög gæfuleg umræða þegar upp er staðið og ætli ýmsir vildu ekki hafa látið ýmislegt ósagt sem þeir sögðu þá, þegar sum sveitarfélögin fóru á undan og náðu kannski uppbyggingartíma og önnur sveitarfélög töldu sig verða að fylgja í kjölfarið. Það var jafnvel haldið uppi mikilli gagnrýni á lóðaskort eins og það var kallað þangað til svo var komið að fleiri þúsund lóðir voru í boði á hverju ári og menn voru farnir að byggja næstum því þrefalt það á ári sem nokkur grundvöllur gat verið fyrir að þyrfti til eðlilegrar endurnýjunar eða viðbótar á húsnæði á svæðinu. Svo lauk því öllu saman með ósköpum og við erum ekki búin að súpa seyðið af því enn.

Þetta leitar nú vonandi jafnvægis, og eigum við þá ekki að hafa trú á skynsemi mannskepnunnar, (Forseti hringir.) að menn hafi lært eitthvað af þessu og gangi nú hægar um gleðinnar dyr þegar aftur fer að lifna yfir fasteignamarkaðnum? (Gripið fram í.)