140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, falli brott. Er sú tillaga í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar en sá starfshópur skilaði skýrslu sinni til iðnaðarráðherra í desember 2011. Samkvæmt umræddu ákvæði 1. mgr. 12. gr. skal frá styrkjum vegna stofnunar nýrra hitaveitna „dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar“.

Í skýrslu starfshópsins eru þau rök færð fyrir brottfalli ákvæðisins að það sé verulega íþyngjandi fyrir smærri jarðhitaverkefni ef allur stofnstyrkur þurrkist út vegna þess opinbera fjármagns sem lagt var í jarðhitaleitina. Dæmi eru um að Alþingi veiti framlag til byggingar minni hitaveitna og ef það framlag kemur til frádráttar þeim styrk sem kveðið er á um í 12. gr. laga nr. 78/2002 getur það leitt til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitunnar bresta.

Frá árinu 2003 hefur umræddu frádráttarákvæði 1. mgr. 12. gr. laganna verði beitt alls fimm sinnum og hefur frádrátturinn samtals numið 26 millj. kr. Afnám ákvæðisins hefur því tiltölulega óveruleg áhrif á hagsmuni ríkissjóðs en skiptir minni hitaveitur og sveitarfélög hins vegar afar miklu máli. Er breytingin enn fremur liður í stefnumörkun ríkisins um aukna nýtingu jarðvarma á landsvísu.

Frumvarp þetta tengist meðal annars lagningu hitaveitu til Skagastrandar eins og boðað var á fundi ríkisstjórnarinnar 16. desember 2011. Gert er ráð fyrir að lagning hitaveitu til Skagastrandar verði fjármögnuð með 180 millj. kr. framlagi sveitarfélagsins, 50 millj. kr. með sérstöku framlagi af fjáraukalögum 2011, 30 millj. kr. af framlagi til sóknaráætlunar samkvæmt fjárlögum 2012 og 150 millj. kr. á grundvelli 12. gr. laga nr. 78/2002.

Miðað við óbreytt lög þarf að draga frá 150 millj. kr. styrknum þær 80 millj. kr. sem Alþingi hefur ákveðið að verja sérstaklega til byggingar hitaveitunnar. Það mundi leiða til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitunnar mundu bresta. Við því er brugðist með frumvarpi þessu.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á nýjar hitaveitur sem sækja um stofnstyrki á grundvelli laga nr. 78/2002. Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu verður ekki séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.