140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er markmiðið og verið er að vinna með tillögur starfshópsins í þessa veru. Í núverandi kerfi er það algjörlega háð fjárveitingum hvers árs hve hárri upphæð er varið til verkefnisins hverju sinni og þar með hversu hátt hlutfall flutnings- og dreifikostnaðar er niðurgreitt. Starfshópurinn telur hins vegar mikilvægt að fjármögnunin sé með öðrum hætti. Hann leggur til mismunandi leiðir og það er það sem verið er að fara yfir. Það er verið að meta þær leiðir og athuga hvort kannski sé hægt að bæta einhverju við þær. Markmiðið er sannarlega að koma með frumvarp í haust þar sem skikki verður komið á þessi mál. Þó að jöfnuðurinn hafi í upphafi verið algjör og allur kostnaður greiddur er staðan orðin þannig að það eru ekki niðurgreidd nema 67% þannig að við þessu þarf að bregðast.

Ég þarf ekkert að fara hér yfir tillögur starfshópsins en hann leggur fram þrjár tillögur að mismunandi fjármögnun og þær tillögur er verið að meta ásamt fleiru hvað þetta málefni varðar.