140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[20:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, það er kannski ekki sanngjarnt að ætlast til þess að hæstv. ráðherra hafi svarið við hinu málinu undir umræðu um þetta tiltekna mál. Þó er það þannig að þetta er stórmál fyrir garðyrkjuna sem hæstv. ráðherra er jafn vel kunnugt um og okkur öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis þannig að ég þigg það góða boð að fá svar frá hæstv. ráðherra svo fljótt sem verða má.

Ef ekki verður af þessari dreifiveitu er óleyst það vandamál sem garðyrkjan stendur frammi fyrir, sem sagt hár taxti Rariks á raforku. Þá er spurningin hvort hæstv. ráðherra hyggist koma inn með frumvarp sem breyti gjaldskrá Rariks til lækkunar. Garðyrkjan fellur ekki undir stórnotendataxtann núna heldur borgar heimilisgjald fyrir þá raforku sem hún tekur inn í sína starfsemi. Ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra, að því gefnu að leyfisveitingin sé ekki bara á lokametrunum og þessi framkvæmd geti hafist, hvort til standi að fara í einhverjar lagabreytingar með gjaldskrána frá Rarik.

Hvort sem verður ofan á held ég að það sé afar mikilvægt að þetta verkefni verði tekið föstum tökum vegna þess að þarna eru óendanlega mörg tækifæri og stórkostlegt að sjá þá uppbyggingu sem orðið hefur í þessum iðnaði á undanförnum árum þannig að ég tel að við gætum náð góðri samstöðu um það hér að greiða sem mest fyrir (Forseti hringir.) þessum iðnaði.