140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem varð til þess að ég óskaði eftir að veita andsvar við ræðu þingmannsins var að þingmaðurinn minntist á hátíðarræðu ríkisstjórnar á Vestfjörðum. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ríkisstjórnin hélt líka hátíðarræðu á Suðurnesjum ofan í víkingaskipinu þar sem miklar áætlanir um mikla atvinnuuppbyggingu áttu að eiga sér stað. Ef ég man rétt er eini afraksturinn af því sem þar hefur komið fram sá að sett var á laggirnar hermangarasafn. Það er í bígerð og væntanlega gæti orðið til eitt starf. Þær eru því víða, mýsnar sem ganga út úr fjalli ríkisstjórnarinnar.

Svo ég sé ekki að grínast hér langt fram á mánudagskvöld ætla ég að spyrja hv. þingmann út í þá vinnu sem atvinnuveganefnd vann í vetur. Þingmaðurinn nefndi ítrekað aðra tillögu sem laut að aukinni jarðvarmavirkjun og þar af leiðandi að stækka þann hluta landsins sem nýtur þeirra forréttinda, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að geta notað heitt vatn til húshitunar. Í meðförum nefndarinnar og undir ágætri stjórn hins röska formanns, hv. þm. Kristjáns L. Möllers, var alveg við það að nefndin færi að flytja frumvarp sem byggðist á tillögum þessa starfshóps. Sér hv. þingmaður fyrir sér að atvinnuveganefnd ætti að skoða það að bæta þessum lið við? Væri það ekki svolítið skynsamlegt? Eins spyr ég hvort atvinnuveganefnd eigi að bíða eftir þeirri vinnu sem hæstv. iðnaðarráðherra nefndi í andsvari við mig áðan að væri farin af stað í ráðuneytinu (Forseti hringir.) eða á atvinnuveganefnd að taka þetta mál til sín, ganga lengra og jafna húshitun (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll?