140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem við höfum staðið frammi fyrir og hefur verið okkar stóra vandamál í sambandi við húshitunarkostnaðinn er þessi gríðarlegi þungi húshitunarkostnaður í dreifbýlustu héruðunum, þ.e. þau viðmið sem við þekkjum og hafa verið við lýði samkvæmt reglugerð um árabil þar sem miðað er við 200 íbúa eða færri. Þetta hefur gert það að verkum að upp koma mjög sérkennilegar aðstæður, ekki þarf annað að gerast en fjölskylda flytji í burtu eða fjölskylda flytji á staðinn til að menn sveiflist þarna á milli verðsvæða. Þetta hefur í raun og veru voðalega lítið að gera með hina markaðslegu stöðu.

Nú veit ég alveg af hverju þetta var gert á sínum tíma því að þá töldu menn að það þyrfti að vera þannig að vildu menn greiða niður flutnings- og dreifingarkostnað yrði að gera það af fé ríkisins en ekki í gegnum orkufyrirtækin. Það var sjónarmiðið sem lá til grundvallar og fyrirheitin voru þau auðvitað að þetta yrði síðan greitt niður að tilteknu marki í gegnum ríkissjóð. Eins og við vitum hefur það ekki tekist alls staðar nægilega vel til, alls ekki tekist nægilega vel til.

Hv. þingmaður rakti þær breytingar sem gerðar hafa verið þar sem viðmiðunum var breytt og hv. þingmaður fór lauslega yfir það. Ég skal játa að ég náði ekki nákvæmlega hvaða áhrif hv. þingmaður taldi að þessar breytingar hefðu haft, hvort þetta hefði í heild sinni haft jákvæð áhrif eða hvort aðrar breytingar, svo sem eins og skírskotun til magnsins sem var þarna til forsendu, hefðu á einhvern hátt slegið á þau jákvæðu áhrif sem ella hefðu orðið af slíkum breytingum. Erindi mitt er þess vegna að biðja hv. þingmann um að fara aðeins betur yfir þessi mál í andsvari til að útskýra fyrir okkur hvaða breytingar þetta hefði haft í för með sér.