140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær rann út frestur til að sækja um Evrópufræðslustyrki Alþingis, samtals 20 millj. kr., til viðbótar við þær 20 milljónir sem var úthlutað í fyrra. Að gefnu tilefni ræddi forsætisnefnd styrk sem Evrópuvaktin fékk í fyrra upp á 4,5 millj. kr. og skilagrein um ráðstöfun á hluta hans, 3 millj. kr. Þessi skilagrein vekur margar spurningar. Tæplega 1 milljón af þessum styrk fór í ferðakostnað, flug og hótel, en líka í dagpeninga upp á 250 þús. kr. og í yfirvigt. Já, Alþingi greiddi yfirvigt fyrir viðkomandi, frú forseti. Restin, 2,1 milljón, fór í að greiða laun fyrir þá sem skrifa á Evrópuvaktina en ekki lágu fyrir upplýsingar um ráðstöfun á 1,5 millj. kr. þessa fjár um síðustu áramót.

Forsætisnefnd taldi hinn 16. apríl sl. nauðsynlegt að endurskoða þessar reglur og kalla til að mynda eftir því að reikningar sem er skilað væru endurskoðaðir sem og upplýsingum um ráðstöfun alls styrks áður en úthlutað er að nýju.

Því miður ákvað forseti á mánudag að fresta þessari endurskoðun til ársins 2013 og því verður 20 milljónum Alþingis væntanlega úthlutað nú samkvæmt reglum sem ég tel að séu ekki nógu vandaðar, því miður, reglum sem geta misskilist og reglum sem má misnota.

Frú forseti. Það var varla ætlan utanríkismálanefndar með tillögum um styrki til frjálsra félagasamtaka að þeir færu í að greiða ferðakostnað og uppihald og laun til einstaklinga sem reka fyrirtæki á sviði upplýsingatækni, hvað þá yfirvigt viðkomandi á ferðalögum. Ég hvet því hæstv. forseta til að fresta nú úthlutun 20 milljónanna þar til búið er að setja betri og skilvirkari reglur um úthlutun, um styrkþegana og um ráðstöfun (Forseti hringir.) þeirra á fé skattborgaranna. Annað, frú forseti, er ekki boðlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)