140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Húsnæðismarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á allra síðustu árum. Aukin eftirspurn er eftir leiguhúsnæði, leigumarkaðurinn er þröngur og ófullburða og það hefur orðið umtalsverð hækkun á leiguhúsnæði.

Umræða og athygli hefur beinst að fasteignakaupendum í greiðsluvanda en minna er horft til þeirra sem eru á leigumarkaði. Ný úttekt Hagstofunnar á húsnæðiskostnaði sýnir að að meðaltali var húsnæðiskostnaður um 18% af ráðstöfunartekjum á árinu 2011 sem er merkileg staðreynd, ekki síst í samanburði við aðrar nærliggjandi þjóðir.

Það sem vekur hins vegar ekki síst athygli er ójöfn staða eigenda og leigjenda. Hlutfallið hjá eigendum er um 17% en að meðaltali 22,3% hjá leigendum og reyndar nær 25% hjá þeim leigjendum sem fá ekki niðurgreidda leigu. Það er athyglisvert að á allra síðustu árum hefur almennur húsnæðiskostnaður farið lækkandi, var um 20% árið 2006 en á sama tíma hefur kostnaður leigjenda aukist úr 20% í 25%. Vaxtabótakerfið hefur létt verulega undir hjá húsnæðiseigendum, ekki síst með sérstökum vaxtabótagreiðslum síðustu ár. En húsaleigubætur ná eingöngu til lítils hóps eða vel innan við helmings þeirra sem eru á leigumarkaði og húsaleigubætur eru þar að auki umtalsvert lægri en rétturinn er til vaxtabóta.

Útreikningar liggja fyrir sem sýna svart á hvítu að fjölskylda með meðallaun sem fjármagnaði íbúðarkaup með 100% lánsfé upp úr síðustu aldamótum átti eftir tíu ár rétt á vaxtabótum upp á 7,5 millj. kr. Ef sama fjölskylda var hins vegar á leigumarkaði með sama húsnæðiskostnað var stuðningurinn til hennar 0 kr. Þarna endurspeglast það misrétti sem hefur viðgengist allt of lengi á húsnæðismarkaði. Á allra næstu dögum verða kynntar tillögur vinnuhóps á vegum velferðarráðuneytisins sem unnið hefur í vetur að tillögugerð um uppstokkun þessara mála með upptöku sérstakra húsnæðisbóta (Forseti hringir.) í stað vaxta- og húsaleigubóta. Það er afar mikilvægt að þeim tillögum verði hrundið í framkvæmd hið allra fyrsta (Gripið fram í: Heyr, heyr.)