140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Nú eru hafnar hinar svokölluðu strandveiðar og það er ekkert launungarmál að sá sem hér talar hefur verið á móti því fyrirkomulagi. Það er tvennt sem hefur aðallega ráðið afstöðu minni, annars vegar sú efnahagslega sóun sem á sér stað við þessar veiðar og hitt að ég hef ásamt mörgum öðrum reifað áhyggjur mínar á því að þetta fyrirkomulag sé til þess fallið að auka áhættuna á sjósókn á Íslandsmiðum.

Frú forseti. Ég ætla, með yðar leyfi, að vitna í Þorleif Reynisson á Kló MB 15, en við hann var viðtal í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag. Þorleifur segir:

„Það er verið að etja okkur út í þetta, svona ólympískar veiðar. Það er verið að etja okkur út í vond veður. Eins og veðrið var í morgun var alveg spurning að fara á sjó.“

Svo heldur hann áfram, með leyfi virðulegs forseta:

„Ef maður hefði átt sína daga eða sinn kvóta þá hefði maður bara skriðið undir sæng aftur.“

Frú forseti. Nú er verið að ræða í þinginu breytingar á fiskveiðistjórnarkerfum. Málið er núna hjá hv. atvinnumálanefnd. Ég vil skora á nefndarmenn að nota tækifærið og breyta þessu fyrirkomulagi. Þetta er óskynsamlegt efnahagslega og til þess fallið að auka áhættuna á sjósókn á Íslandsmiðum. Þetta er alvörumál og það er ástæða til að hlusta á þegar þeir sem sækja sjóinn segja: Það er verið að etja okkur út í vond veður. Það er ástæða til að hlusta á slík ummæli og bregðast við þeim.