140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var áhugavert að heyra orð hv. þm. Þuríðar Backman rétt í þessu þar sem hún talaði um mikilvægi þess að mál fengju þinglega meðferð, kæmust til nefnda og út til umsagna. Það vill nefnilega svo til að málið sem hér er næst á eftir hefur ekki fengið sómasamlega þinglega meðferð. Ég vildi upplýsa hæstv. forseta og hv. þingmenn um þetta vegna þess að staðan er einfaldlega sú að við erum að taka til umræðu á eftir þingsályktunartillögu um Stjórnarráð Íslands frá forsætisráðherra. Tillagan kom fyrst til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á þriðjudag í síðustu viku, var rædd á fundi þá og á fundi á fimmtudaginn og síðan á föstudagsmorgun og þá var málið tekið út og ekki var orðið við óskum um að málið yrði sent út til umsagnar. Vegna kröfu stjórnarandstöðunnar komu að vísu nokkrir gestir á fund nefndarinnar og fyrir það ber að þakka en þessi snöggsoðna málsmeðferð er alls ekki í samræmi við hugmyndir (Forseti hringir.) okkar um þinglega meðferð.