140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur með því að segja að ég gef ekki neitt fyrir mat hennar á því hvort málið sé fullunnið eða ekki. Það er ekki fullunnið mál þegar ný breyting kemur inn í þingið um að færa efnahagsmálin inn í fjármálaráðuneytið, sem er í andstöðu við sjálfan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hefur aldrei verið leitað umsagna um það atriði. Ég gef ekkert fyrir að það sé mat hv. þingmanns. Ég hefði svo sannarlega viljað fá umsagnir þeirra sem starfa í þessum geira til að geta þá fullvissað mig um að eitthvað sé byggjandi á mati hv. þingmanns. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því og ég skil ekki alveg af hverju það liggur svona mikið á. Hv. þm. Þuríður Backman sagði áðan að ástæðan við því að við ætluðum (Forseti hringir.) að hafa lengri fund væri sú að koma málum til nefndar. Þetta mál er efst á dagskrá. Það fara ekki mál til nefndar á meðan þetta mál er til umræðu.