140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

þingleg meðferð mála.

[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það fór um hv. stjórnarþingmenn þegar hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir benti á það sem augljóst er að á meðan mál eru til umræðu fer ekki annað mál til nefndar. (REÁ: Rétt.) Hvers vegna fara menn á taugum yfir því? Ég átta mig ekki á því frekar en því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði. Ég hvet hv. þingmenn og aðra sem fylgjast með til að leggja orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur á minnið. Hér kom hv. þingmaður, hvorki meira né minna en verkstjórinn í þessu máli, og sagði: Hér var vel og fagmannlega unnið. Þá vitum við hvað það þýðir hjá stjórnarliðum. Þetta þýðir að vinna vel og fagmannlega, að senda ekki málið til umsagnar, spyrja engan og fá engin önnur sjónarmið fram. Það er að vinna hlutina vel og fagmannlega. Ég hvet alla hv. þingmenn og aðra til að muna þessi orð. Þetta er skilgreining hv. stjórnarliða á því að vinna vel og fagmannlega. (Gripið fram í.) (VigH: Hneyksli.)